Vinaliðaverkefnið er sett upp þannig að Vinaliðar úr 4.-6. bekk, sem ekki hafa orðið uppvísir að eineltisþátttöku, skipuleggja leiki og hreyfingu í löngu frímínútum skólans. Við skiptum skólaárinu í tvö Vinaliðatímabil, fyrir áramót og eftir áramót.
Nemendur fá glærukynningu að hausti um Vinaliðaverkefnið. Í kynningunni kemur fram hvernig góður Vinaliði á að vera, hverjir geta orðið Vinaliðar og hvað þeir fá fyrir það. Nemandi sem á neikvæð samskipti við börn eða fullorðna getur ekki orðið Vinaliði í dag.
Vinaliðar funda á tveggja vikna fresti ásamt verkefnastjóra skólans. Á fundunum skipuleggja þeir hvaða afþreying verði í boði næstu tvær vikurnar í frímínútum skólastarfsins. Þau skipta sér á stöðvar og ákveða hvar á skólalóðinni hver leikjastöð verði.
Vinaliðar setja leikina af stað. Þeir taka þátt í leikjunum og leiða þá áfram af jákvæðni og sanngirni. Ef það þarf að skipta í lið þá gerir Vinaliði það. Vinaliði er samt ekki dómari eða þjónustuaðili fyrir hin börnin, hann er þátttakandi í leiknum.
Börn sem mæta á Vinaliðastöð í leik eiga að sýna Vinaliðum þá virðingu að hlusta á þá og fara eftir leikreglum sem þeir setja. Ef upp koma leiðindi á stöðinni eiga fullorðnir gæsluaðilar að koma til aðstoðar.