Annar stuðningur

Lausnateymi

Lausnateymi er starfandi fyrir kennara vegna nemenda með námserfiðleika, hegðunar- og samskiptaörðugleika. Deildarstjóri sérkennslu stjórnar teyminu og hlutverk þess er að veita kennurum ráðgjöf vegna námserfiðleika, samskipta- og hegðunarerfiðleika nemenda sem upp kunna að koma í kennslu.

Nemendaverndarráð

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur. Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu. Ávallt skal vísa málum til ráðsins með formlegum hætti.
Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Námsráðgjöf

Laugarnesskóli hefur gert samning við Laugarlækjarskóla um aðgang að námsráðgjafa. Námsráðgjafi er talsmaður og trúnaðarmaður nemenda. Hann vinnur bæði að einstaklings- og hópráðgjöf. Nemendur geta leitað til námsráðgjafans að eigin frumkvæði og einnig geta foreldrar haft samband í síma skólans, sent tölvupóst eða komið í heimsókn. Fyllsta trúnaðar er gætt.
Foreldrar geta haft samband við námsráðgjafa vegna ýmissa mála sem snerta velferð barnsins. Til dæmis vegna erfiðleika í námi, námsleiða, prófkvíða, persónulegra mála, eineltis, samskiptaerfiðleika, upplýsinga um nám og störf og fleira.
Námsráðgjafi hefur einnig samband við foreldra að fyrra bragði og vinnur í nánu samstarfi við þá eftir því sem við á. Hann hefur samráð og samstarf við aðra sérfræðinga innan og utan skólans s.s. sérkennara, talkennara, skólahjúkrunarfræðing og skólasálfræðing; hann vísar málum til þeirra eftir því sem við á. Námsráðgjafi situr í nemendaverndarráði.

Prenta | Netfang