Heilsugæsla í Laugarnesskóla

Heilsugæslan er á vegum Heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla 4.

Hjúkrunarfræðingur er Heiðlóa Ásvaldsdóttir og læknir Salóme Ásta Arnardóttir.

Viðtalstímar Heiðlóu í Laugarnesskóla eru sem hér segir: Mánudaga kl. 8:30-14:00. Fimmtudaga kl. 8:30-14:00. Föstudaga kl. 8:30-12:30

Markmið heilsugæslu er að stuðla að því að barnið fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á.

Heilsuvernd skólabarna er markvisst framhald af ung- og smábarnaheilsuvernd til að efla heilbrigði og stuðla að vellíðan barns í samvinnu við foreldra.

Hlutverk hjúkrunarfræðings er að fylgjast með andlegum og líkamlegum þroska nemenda, heilsufari, klæðnaði, hreinlæti og aðbúnaði í skóla. Hjúkrunarfræðingur er í samvinnu við foreldra, skólalækni, kennara og annað starfsfólk skólans. Farið er með allar upplýsingar um nemendur sem trúnaðarmál. Fylgst er með líkamsvexti og þroska. Framkvæmd sjónpróf og heyrnarmælingar. Barninu er hjálpað við að leita úrlausna á þeim vandamálum sem það leitar með til hjúkrunarfræðings svo nokkuð sé nefnt.

Skólahjúkrunarfræðingur fylgist sérstaklega með þeim börnum sem eiga við einhver vandkvæði að stríða, hvort sem þau eru af líkamlegum, andlegum eða félagslegum toga.

Heilsuvefurinn

6H.is

Heilsuvefurinn http://www.6h.is/ er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Lýðheilsustöðvar, Landlæknisembættisins og Barnaspítala Hringsins. Markmiðið með þessum heilsuvef er að börn, unglingar og foreldrar hafi áreiðanlegar upplýsingar frá fagfólki um heilsutengda þætti.

6h heilsunnar byggir á sex hugtökum sem byrja öll á h og þau eru: hollusta, hreyfing, hamingja, hugrekki, hvíld og hreinlæti. Sjöunda hugtakið sem er kynheilbrigði hefur skírskotun í tölustafinn 6. Heilbrigðisfræðsla skólahjúkrunarfræðinga byggir á þessari hugmyndafræði og því þekkja skólabörn vel 6h heilsunnar.

Heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðiseftirlit fer fram samkvæmt tillögum frá landlæknisembættinu og fer fram með eftirfandandi hætti:

6 ára: heyrnarmæling og viðtal við foreldra.

7 ára: sjónpróf.

9 ára: hæðar- og þyngdarmæling, sjónpróf, almenn læknisskoðun.

12 ára: hæðar- og þyngdarmæling, sjónpróf, litarskyn er athugað hjá drengjum, almenn læknisskoðun.

Markmiði heilsugæslu í skóla er einungis hægt að ná með góðri samvinnu við foreldra eða forráðamenn barnanna. Ef barnið þarf sérstaka umönnun eða eftirlit eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Það sama gildir ef breyting hefur orðið á högum barnsins sem getur haft áhrif á líðan þess í skólanum.

Persónulegt hreinlæti og klæðnaður

Mikilvægt er að börnin komi hrein og snyrtileg til fara í skólann. Það hefur m.a. uppeldislegt gildi, stuðlar að vellíðan, styrkir sjálfsmyndina og minnkar líkur á að barnið verði fyrir stríðni eða aðkasti í skólanum.

Þurfi barn á lyfjagjöf að halda á skólatíma eru foreldrar beðnir að hafa samband við hjúkrunarfræðing skólans.

Prenta | Netfang