Móttaka nýrra nemenda

Við móttöku nýrra nemenda er lögð áhersla á hlýjar móttökur og skýrar upplýsingar. Foreldrar og nemandi eru boðuð í skólann til kynningar áður en kennsla hefst. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri leiða nemandann og foreldra hans um skólann og kynna þeim húsnæðið og skólastarfið. Ef tök eru á kynnir hann einnig nemandann fyrir verðandi umsjónarkennara. Við komu nýs nemanda í bekk er sérstaklega stuðlað að því að hann tengist þeim sem fyrir eru og er þá einum eða nokkrum nemendum falið það hlutverk að fylgja honum um skólann fyrstu dagana og bjóða honum að vera með í frímínútum. Þegar tekið er á móti beiðni um skólavist fyrir barn fá foreldrar í hendur upplýsingabækling fyrir foreldra nýrra nemenda. Hér má nálgast bæklinginn. Deildarstjóri sérkennslu veitir nýbúum auk þess sérstaka umsjón ef þess gerist þörf. 

Upplýsingabæklingur fyrir erlenda foreldra

Þegar tekið er á móti beiðni um skólavist fyrir erlent barn fá foreldrar í hendur upplýsingabækling fyrir erlenda foreldra grunnskólabarna, innritunarblöð og grunnupplýsingar um skólann. Meira hér.

Skólastjórnendur og deildarstjóri sérkennslu bera ábyrgð á innritun erlendra nemenda. Deildarstjóri sérkennslu veitir nýbúum auk þess sérstaka umsjón ef þess gerist þörf.

Íslenska sem annað tungumál

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við nemendur af íslenskum sem erlendum uppruna. Námsgreinin íslenska sem annað mál nær til allra námsgreina. Nemendurnir geta hafið nám í íslenskum skólum á hvaða námsstigi sem er og með mismunandi íslenskukunnáttu og menntunarbakgrunn.

Í kennslunni er lögð áhersla á talmál, skilning, hlustun, lestur, ritun, menningarfærni, skólamál og námsfærni. Notaðar eru fjölbreyttar kennsluaðferðir og tekið er mið af aldri og stöðu nemendanna hverju sinni. Markmið kennslunnar er að nemandi verði fær um að nota íslenskt mál og menningarfærni sér til framdráttar í samskiptum og sem grunn undir frekara nám. Enn fremur að nemandi:

  • noti íslensku til að tjá hug sinn og þarfir í töluðu og rituðu máli og skilji aðra
  • noti íslensku til að taka þátt í samræðum og leikjum og taka tillit til viðmælenda
  • hafi þroskað með sér menningarfærni sem auðveldar samskipti við önnur börn og fullorðna
  • geti leikið sér með málið og prófað tilgátur um mál og málnotkun
  • geti lesið einfalda texta sér til gagns og ánægju og tjáð sig um þá í töluðu og rituðu máli í samræmi við íslenskar málvenjur, aldur og þroska

Prenta | Netfang