Starfsmannastefna Laugarnesskóla

Lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur, ósk.

Starfsmannastefna Laugarnesskóla er grundvölluð á starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar, stefnu Menntasviðs Reykjavíkur í mannauðsmálum , lögum um grunnskóla nr. 91/2008 í 12.gr. og siðareglur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Gildi skólans lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur og ósk eru leiðarljós starfsmanna í að skapa góðan vinnustað. Markmið starfsmannastefnu Laugarnesskóla eru að:

 • tileinka okkur stefnu og gildi Laugarnesskóla
 • benda á leiðir til að bæta líðan, samskipti og vinnuumhverfi í skólanum
 • sýna hvort öðru umburðarlyndi og tillitssemi
 • virða trúnað við nemendur og samstarfsmenn
 • vera vakandi fyrir nýjum sóknarfærum, taka áskorunum og finna nýjar lausnir
 • gæta jafnréttis milli einstaklinga
 • leiðbeina, hvetja og hrósa fyrir góðan árangur og ræða það sem betur má fara
 • ná árangri í starfi
 • líða hvorki einelti né kynferðisleg áreitni
 • skapa góð vinnuskilyrði og tækifæri til að þroskast í starfi
 • samræma kröfur starfs- og einkalífs eins og kostur er
 • starfsumhverfið sé öruggt og heilsusamlegt

Framkvæmd

Einelti og áreitni á vinnustöðum

Á aðalskrifstofu Menntasviðs Reykjavíkur er starfrækt eineltisteymi sem hefur það hlutverk að bregðast við og vinna gegn einelti og áreitni meðal starfsmanna í grunnskólum borgarinnar. Hlutverk teymisins er meðal annars að vera ráðgefandi við stjórnendur og starfsmenn þegar slík mál koma upp, taka á móti tilkynningum um einelti eða áreitni starfsmanna sem ekki hefur tekist að vinna úr í viðkomandi skóla, vinna að úrlausn mála og huga að fræðslu og forvörnum í eineltis og áreitnimálum.

Stefna og viðbragðsáætlun Menntasviðs Reykjavíkurborgar vegna eineltis og áreitni á vinnustöðum (PDF).

Verklagsreglur vegna kynferðislegs áreitis

Sem vinnuveitandi skal Reykjavíkurborg gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að kynferðisleg áreitni eigi sér stað á vinnustöðum, sbr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Þar er jafnframt kveðið á um að atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagsstarfs skuli gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða í skólum. Í jafnréttislögum er kynferðisleg áreitni skilgreind á eftirfarandi hátt: Hverskyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Mikilvægt er að benda á að samkvæmt skilgreiningunni er það í höndum þess sem fyrir áreitni verður að meta hvenær er um kynferðislega áreitni að ræða. Lögin kveða einnig á um að ef yfirmaður er kærður vegna meintrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að ákvarða um vinnuskilyrði kæranda á meðan rannsókn málsins stendur yfir og skal næsti yfirmaður taka ákvarðanir er varða kæranda.

Laugarnesskóli

Í Laugarnesskóla er unnið í samræmi við starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar. Allt starfsfólk borgarinnar á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það hafi tækifæri til að vinna störf sín án þess að eiga á hættu einelti og kynferðislega áreitni. Lögð er áhersla á að borgin stuðli að andlegu og líkamlegu heilbrigði starfsfólks og að starfsumhverfi sé heilsusamlegt.
Starfsmaður sem þola þarf kynferðislega áreitni og/eða einelti er ekki líklegur til að skila jafngóðu starfi og hann/hún annars gerði. Vinnustaður þar sem kynferðisleg áreitni og/eða einelti viðgengst býður ekki upp á góðan vinnuanda og vinnuskilyrði. Það er því öllum í hag að reynt sé af fyllstu alvöru að skapa góðar starfsaðstæður og koma í veg fyrir hverskonar áreitni.

Verklag

Komi upp tilvik sem varða kynferðislega áreitni eða einelti er starfsfólk sem fyrir því verður hvatt til þess að leita sér aðstoðar. Yfirmanni, öryggistrúnaðarmanni eða trúnaðarmanni stéttarfélags, ber að tilkynna um slíka hegðun séu þeir upplýstir um hana.
Ráð til starfsmanna sem verða fyrir áreitni/einelti
Verið getur að viðkomandi gerandi sé ómeðvitaður um að þú þolir ekki þá hegðun sem hann/hún viðhefur gagnvart þér.

 • Gerðu geranda afdráttarlaust grein fyrir því að þér líki ekki framkoman og munir ekki þola hana. Ef þú treystir þér ekki til að tala ein/ einn við viðkomandi getur þú haft einhvern með þér eða sent bréf eða tölvupóst en mundu þá að geyma afrit.
 • Gættu þess að kenna ekki sjálfri/ sjálfum þér um einelti eða kynferðislegt áreiti.
 • Ef viðkomandi lætur sér ekki segjast skalt þú leita aðstoðar t.d. sálfræðings, félagsráðgjafa, eða annars fagmanns sem veitir ráðgjöf og aðstoð í málum sem varða kynferðislega áreitni og einelti.
 • Upplýstu yfirmann þinn, öryggistrúnaðarmann eða öryggisvörð um einelti eða kynferðislegt áreiti. Ef enginn öryggistrúnaðarmaður er á vinnustaðnum getur þú upplýst trúnaðarmann stéttarfélags þíns um atvikin.
 • Mundu að skrá hjá þér nákvæma lýsingu á því sem gerist hverju sinni, fylgstu með hvort einhverjar breytingar verða á verkefnum þínum (ef gerandi er t.d. yfirmaður eða annar/önnur sem hefur áhrif á verkefni þín).
 • Gættu þess að reyna ekki að standa ein/einn í stríði við samstarfsmann/yfirmann þinn.
 • Ekki draga of lengi að gera eitthvað í málinu – það lagast ekki af sjálfu sér!
 • Ef um er að ræða gróft brot, s.s. nauðgunartilraun, kúgun eða aðrar hótanir skaltu strax hafa samband við lögreglu en upplýsa yfirmann, öryggisvörð eða öryggistrúnaðarmann (trúnaðarmann stéttarfélags ef ekki er öryggistrúnaðarmaður á staðnum) þegar þú er beitt/beittur kúgun eða öðrum hótunum.
 • Alltaf er hægt að leita beint til stéttarfélags um ráð.

Verklagsreglur stjórnenda

Skyldur yfirmanna eru að skapa vinnuskilyrði sem sporna gegn kynferðislegri áreitni og/eða einelti. Yfirmönnum ber einnig skylda til að taka á málum samkvæmt stjórnsýslulögum og leita aðstoðar hjá sviðsstjóra eða sveitarstjóra eftir atvikum. Allar kvartanir vegna kynferðislegrar áreitni/eineltis skulu rannsakaðar/kannaðar og starfsfólk stutt eftir bestu getu. Málsmeðferð skal flýtt sem frekast er unnt.

 • Kvartanir vegna kynferðislegrar áreitni/eineltis á vinnustað geta verið hvort heldur er munnlegar eða skriflegar. Stjórnandi skal halda nákvæma minnispunkta um málið.
 • Stjórnanda ber að leita allra leiða til að binda endi á áreitni.
 • Stjórnandi skal bregðast, við eins fljótt og kostur er og taka strax og ákveðið á málinu.
 • Stjórnandi ræðir við aðila málsins og kynnir sér báðar hliðar.
 • Sé atvikið það alvarlegt að um saknæmt brot sé að ræða skv. hegningarlögum skal það kært til lögreglu, þó með fullu samþykki þolanda.
 • Stjórnandi skal leiðbeina þolandanum um hvar hann getur leitað sér aðstoðar.
 • Stjórnandi kynnir gerandanum afleiðingar af gerðum hans
 • Stjórnanda ber að hvetja gerandann til þess að leita sér aðstoðar við vanda sínum.
 • Þolandi á engan skaða að bera af ráðstöfunum sem stjórnandi grípur til.
 • Alvarleg og endurtekin áreitni varðar áminningu sem leitt gæti til brottrekstrar úr starfi.
 • Þurfi að færa starfsmenn sem í hlut eiga til í starfi, skal færa gerandann en ekki þolandann.
 • Við meðferð kvartana sem berast vegna kynferðislegrar áreitni/eineltis skal gætt fyllsta trúnaðar til að vernda hagsmuni allra aðila. Það gildir einnig um öll gögn sem tengjast málinu.

Ráðning starfsmanna

Í Laugarnesskóla er stefnt að því að ráða ávallt hæfasta einstaklinginn til að gegna hverju starfi. Það er stefna skólans að allir þeir sem sinna kennslu í skólanum hafi kennsluréttindi. Lögð er áhersla á að þeir sem sinna störfum stuðningsfulltrúa hafi uppeldimenntun eða reynslu af starfi með börnum. Lögð er áhersla á að kynna skólann og starfsemi hans vel fyrir starfsmönnum og gera þeim grein fyrir réttindum sínum, skyldum og ábyrgð. Skólastjóri hefur umsjón með og heldur utan um ráðningasamninga starfsmanna. Allir starfsmenn eru ráðnir samkvæmt kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga eða samkomulagi. Allir starfsmenn sem eru ráðnir til starfa við skólann þurfa að hafa hreint sakavottorð og fær skólastjóri heimild fyrir því að afla upplýsinga um að svo sé. Allir starfsmenn skólans starfa samkvæmt skilgreindum vinnutímaramma og er farið yfir hann með hverjum starfsmanna á hverju hausti. Starfsuppsögn af beggja hálfu fer eftir gildandi kjarasamningi í viðkomandi stéttarfélagi nema annað sé tekið fram í ráðningasamningi. Þessi uppsagnarákvæði gilda þó ekki ef starfsmaður sýnir vítavert athæfi í starfi (sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70 frá 1996). Vítavert athæfi getur leitt til brottvikningar.

Leiðsögn nýliða

Þegar gengið er frá ráðningu nýs starfsmanns fær hann í hendur bækling með upplýsingum um helstu þætti í almennri starfsemi skólans. Einnig fær hann starfslýsingu ásamt upplýsingum um skipurit skólans. Starfsmaðurinn fær svo leiðsögn um húsnæði skólans og honum sagt frá því hvaða starfsemi er á hverjum stað.
Þegar starfsmaður hefur störf í skólanum er honum skipaður tengiliður sem hann getur leitað til með sín mál. Þá er átt við mál er varða vinnuna eða upplýsingar um tilhögun ýmissa mála innan skólans. Tengiliðurinn skal sjá um að upplýsa starfsmanninn um það sem hann vantar vitneskju um og segja honum frá ýmsum óskrifuðum reglum á vinnustaðnum.
Þegar nýr starfsmaður hefur störf er hann kynntur með mynd í tölvupósti ásamt því að þar er sagt frá hvaða störfum viðkomandi sinnir.
Ef þannig sendur á er nýr starfsmaður kynntur á starfsmanna- eða kennarafundi og hann boðinn velkominn.
Æskilegt er að næsti yfirmaður starfsmannsins ræði við hann um ýmislegt það sem viðkemur vinnustaðnum fyrsta starfsdaginn. Rætt sé við starfsmanninn á ný eftir viku í starfi og svo aftur eftir mánuð.
Starfsmaður fái tölvuaðgang og upplýsingar um farveg upplýsingastreymis sem fyrst .

Trúnaðarmenn

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað er varðar framkvæmd kjarasamnings og skilaboð og upplýsingamiðlun til félagsmanna. Trúnaðarmenn skulu kjörnir til tveggja ára í senn. Val trúnaðarmanna skal tilkynna til vinnuveitanda og stéttarfélags. Á hverjum vinnustað þar sem a.m.k. fimm menn vinna er starfsmönnum heimilt að kjósa einn trúnaðarmann úr sínum hópi. Ef starfsmenn eru fleiri en fimmtíu skulu trúnaðarmenn vera tveir. Trúnaðarmenn eru María Birgisdóttir fyrir KÍ og Dýrleif Jónsdóttir fyrir SFR.

Starfsþróun

Frumkvæði starfsmanna, metnaður og árvekni í fræðslu og starfsþróun er lykill að árangri. Í Laugarnesskóla er stefnt að því að veita öllu starfsfólki tækifæri til að viðhalda menntun sinni með símenntun. Starfsþróun felst í því að gefa starfsmönnum Laugarnesskóla kost á að bæta hæfni sína í störfum og þekkingu. Leiðarljós Laugarnesskóla í starfsþróun er að:

 • skapa starfsfólki skilyrði til starfsþroska og skólaþróunar
 • þróa eigin starfshætti til að þjóna hagsmunum nemenda betur
 • afla nýrrar þekkingar og hæfni til að gegna þeim störfum sem viðkomandi er falið að sinna.
 • styrkja sjálfstraust og sjálfsvirðingu allra starfsmanna skólans og auka færni þeirra í samskiptum við samstarfsmenn og aðra sem skólinn þjónustar.
 • setja sér krefjandi markmið og kanna reglulega hvort þeim hafi verið náð
 • nýta þau tækifæri sem bjóðast til starfsþróunar
 • sýna frumkvæði við að miðla af eigin þekkingu og reynslu
 • hvetja hvert annað til dáða
 • vera opin fyrir nýjum hugmyndum og tilbúin til að reyna þær
 • starfsþróunaráætlun skólans sé í sífelldri endurskoðun.

Framkvæmd starfsþróunar

Skólastjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd og úrvinnslu starfsþróunaráætlana. Aðstoðarskólastjóri og deildastjórar eru skólastjóra til aðstoðar og starfsfólk tekur þátt í að móta hana. Fjármagn til símenntunar er af fjárhagsáætlun Laugarnesskóla, frá Menntasviði Reykjavíkurborgar, Kennarasambandi Íslands og frá Menntamálaráðuneytinu sem árlega veita styrki úr þróunarsjóðum. Þá geta kennarar sótt um einstaklingsstyrki úr endurmenntunarsjóði Kennarasambands Íslands og aðrir starfsmenn úr menntasjóði Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Samkvæmt kjarasamningum kennara eru ætlaðar 150 klukkustundir til símenntunar. Í starfsmannasamtölum er rætt um starfsþróun, framkvæmd hennar, árangur og óskir fyrir næsta Undanfarin ár hefur kjarni starfsþróunar verið að móta hegðunarkerfi skólans, PBS og fjölbreytta kennsluhætti.

Prenta | Netfang