Starfslýsingar

Stefnt er að því að starfslýsingar sarfslýsingar séu til fyrir öll störf strax við ráðningu. Starfslýsingar skulu endurskoðaðar með reglubundnum hætti.

Skólastjóri

Grunnskólalög kveða á um skyldur skólastjóra:

Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn. Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma grunnskóla. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans. Skólastjóri boðar til starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir.

Skólastjóri gerir tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla með tilliti til þarfa viðkomandi skóla. Skólastjóri ákveður verksvið annarra stjórnenda skólans og skal einn þeirra vera staðgengill skólastjóra.

Aðstoðarskólastjóri

Næsti yfirmaður: Skólastjóri
Tilgangur starfs: Að koma að stjórnun og rekstri Laugarnesskóla. Taka þátt í að þróa skólastarf og önnur störf sem fara fram innan skólans.
Ábyrgðarsvið: Að vera skólastjóra til aðstoðar við almenn stjórnunarstörf þannig að skólastarfið gangi eðlilega fyrir sig. Að sjá um daglega stjórnun skv. skipuriti.
Helstu verkefni:

 • Er staðgengill skólastjóra og kemur að almennum stjórnunarstörfum eftir þörfum.
 • Vinna að málefnum nýbúafræðslu.
 • Vinnur með stjórn foreldrafélagsins.
 • Annast framkvæmd mats á skólastarfi.
 • Annast samskipti við KHÍ og móttöku kennaranema.
 • Þátttaka á stjórnendafundum, nemendaverndarráði, áfallaráði og fagteymisvinna.
 • Leysir afleysingar í forföllum starfsmanna og samskipti við launadeild SFS.
 • Ritstjórn heimasíðu skólans
 • Umsjón með upplýsingaveitu skólans, samskipti við UTD.
 • Samskipti við barnaverndaryfirvöld.
 • Samskipti við Námsgagnastofnun - bókapöntun.
 • Deildarstjórn/umsjón með námi og kennslu barna í 5. og 6. bekk.
 • Önnur þau störf er skólastjóri felur.

Ritari

Næsti yfirmaður: Skólastjóri
Tilgangur starfs: Að veita skrifstofu skólans forstöðu, sjá til þess að gögn varðandi nemendur og bókhald séu skráð og varðveitt. Veita nemendum, foreldrum og starfsfólki venjubundna skrifstofuþjónustu.
Ábyrgðarsvið: Að sjá til þess skrifstofa skólans starfi á fullnægjandi hátt.
Helstu verkefni:

 • Móttaka þeirra sem eiga erindi á skrifstofu skólans. Símaþjónusta, póstafgreiðsla, ljósritun. Tryggir að upplýsingar frá stjórnendum berist örugglega til réttra aðila.
 • Ber ábyrgð á skjalavistun skólans (geymsla, skipulag, skráning, frágangur fundagerða).
 • Færa og viðhalda nemenda- og starfsmannaskrá svo hún sé sem réttust á hverjum tíma.
 • Almenn skrifstofustörf. Umsjón með skrifstofuvörum skólans, móttaka og birgðahald.
 • Verkstjórn við störf á skrifstofu eftir því sem við á.
 • Heldur bókhald yfir þá rekstrarþætti sem honum eru faldir. Uppgjör mötuneytis starfsmanna og nemenda. Annast innkaup, peningaumsýslu og bankaviðskipti í samráði við skólastjóra.
 • Undirbúningur og frágangur ráðningarsamninga, vinnuskýrslna, vinnutímaramma.
 • Kannar réttmæti reikninga, yfirfer rétta gjaldaliði og sendir Menntasviði Reykjavíkurborgar til greiðslu.
 • Önnur þau störf sem falin eru af skólastjóra.

Deildarstjóri 1. - 4. bekkja

Tilgangur starfs: Að auðvelda stjórnun og markvissari vinnubrögð þannig að kennurum verði auðveldað að fá sérfræðiaðstoð og úrvinnslu mála.
Ábyrgðarsvið: Hafa umsjón með skipulagi, skólaþróun og samhæfingu skólastarfs á tilteknu aldursstigi. Öflun upplýsinga, úrvinnsla, samráð og kynning vegna skólanámskrár.
Helstu verkefni:

 • Hafa umsjón með námi og kennslu barna í 1. - 4. eða 5. - 6. bekk.
 • Umsjón með deildafundum.
 • Ráðgjöf til kennara, foreldra og nemenda
 • Kennsla skv. kjarasamningi.
 • Þátttaka í stjórnendafundum, nemendaverndarráði, lausnateymi og fagteymi.
 • Hafa umsjón með skipulagi tiltekinna daga.
 • Önnur þau störf sem skólastjóri felur.

Verkefnastjóri sérúrræða

Næsti yfirmaður: Skólastjóri
Tilgangur starfs: Að auðvelda stjórnun og markvissari vinnubrögð þannig að nemendum verði auðveldað að fá sérfræðiaðstoð og úrvinnslu mála.
Ábyrgðarsvið: Að sjá til þess að sérkennsla fari fram skv. Aðalnámskrá og skólanámskrá. Að stuðningur við kennara verði veittur þegar það á við.
Helstu verkefni:

 • Hafa umsjón með sérúrræðum nemenda.
 • Dagleg verkstjórn stuðningsfulltrúa og þroskaþjálfa.
 • Skipulag á innra starfi svo sem: sérkennslutímum, stuðningsfulltrúa, námsskrárvinnu, samræmdum prófum o.fl.
 • Greiningar, próf, fundir og skilafundir.
 • Þátttaka og stjórnun í nemendaverndarráði og lausnateymi.
 • Önnur þau störf sem skólastjóri felur.

Sérkennari

Sérkennari sér um kennslu sem felur í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á.
Sérkennari gerir greiningu á námstöðu nemenda og námsáætlun í samstarfi við kennara sem byggir á greiningunni og með hliðsjón af skólanámskrá.
Hann veitir kennurum ráðgjöf varðandi nám, kennslu og námsgögn, aðstoðar kennara við gerð einstaklingsnámskrár fyrir nemendur sem ekki fylgja hefðbundinni áætlun.
Hann hefur umsjón með námsgögnum sem tengjast sérkennslu, aflar þeirra eða útbýr gagnasafn.
Sérkennarar eru foreldrum, nemendum, kennurum og skólastjórn¬endum til ráðgjafar. Þeir útbúa einstaklingsmiðuð námsgögn, aðstoða við námsmat og leggja til notkun hjálpartækja þegar við á. Einnig annast þeir kennslu nemenda, oftast í litlum hópum en stundum einstaklingskennslu ef þörf er á. Ætíð skal stefnt að því að slík kennsla sé markviss, byggð á getu nemandans og til þess fallin að auka árangur nemandans í því viðfangsefni sem unnið er með.
Sérkennari situr í lausnateymi og er teymisstjóri.

Matreiðslumeistari

Næsti yfirmaður: Skólastjóri .
Tilgangur starfs og ábyrgðarsvið: Annast daglegan rekstur og verkstjórn mötuneytis fyrir
starfsfólk og nemendur í samvinnu við skólastjóra. Hefur gæði matar og að
næringargildi leiðarljósi og gætir hagkvæmni í rekstri.

Helstu verkefni:

 • Ber ábyrgð á að innra eftirlit sé skv. verklagsreglum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar og tekur þátt í framkvæmd þess.
 • Ber ábyrgð á að næringargildi matarins sé í samræmi við manneldismarkmið
 • Gerir matseðla og sér um kynningu á þeim
 • Annast innkaup á matvælum og annarri rekstrarvöru fyrir mötuneytið og sér um að fara ekki yfir fjárheimildir
 • Aðstoð við undirbúning og móttöku gesta þegar tilefni eru til.
 • Undirbúningur og framkvæmd við sérstök tilefni svo sem upphaf og lok skólaárs, fyrir jól o.fl..
 • Annast matreiðslu, undirbúning, umgengni og frágang matvæla í eldhúsi
 • Hefur eftirlit með tækjum og lausum búnaði í mötuneytiseldhúsinu og kallar til eftirlits og viðhalds í samráði við skólastjóra
 • Leiðbeinir nemendum í samskiptum og umgengni

Skólaliði/Baðvörður drengja

Næsti yfirmaður: Umsjónarmaður Laugarnesskóla.
Tilgangur starfs: Sjá um bað - og búningsklefa drengja og að farið sé þar að reglum skólans. Ýmis þjónusta og aðstoð við nemendur. Gæsla og þrif á húsnæði og eignum skólans.
Helstu verkefni:

 • Hafa eftirlit með börnum í bað - og búningsklefa í tengslum við íþróttatíma.
 • Leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni.
 • Sér um dagleg þrif á bað - og búningsklefa, og salernum ásamt öðrum vistarverum í íþróttasal
 • Almenn störf við þrif á skólahúsnæði og skólalóð
 • Umsjón í skólahúsnæði í frímínútum og hádegishléi
 • Almenn umsjón, eftirlit og tilfallandi þrif, tiltekt og frágang á göngum sal og
 • snyrtingum (þrífur gólf og rúður, bregst við óhöppum o.fl.) .
 • Aðstoð við flokkun úrgangs.
 • Svarar fyrirspurnum um týndan fatnað og óskilamuni.
 • Leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni
 • Önnur þau störf sem skólastjóri felur.

Skólaliði/Baðvörður stúlkna

Næsti yfirmaður: Umsjónarmaður Laugarnesskóla.
Tilgangur starfs: Sjá um bað - og búningsklefa nemenda og að farið sé þar að reglum skólans í tengslum við íþróttatíma. Annast þrif á skólahúsnæðinu.
Helstu verkefni:

 • Hafa eftirlit með börnum í bað - og búningsklefa í tengslum við íþróttatíma.
 • Sér um dagleg þrif í bað- og búningsklefa, ásamt snyrtingum og öðrum vistarverum í íþróttasal.
 • Almenn umsjón, eftirlit og tilfallandi þrif, tiltekt og frágang á göngum sal og snyrtingum (þrífur gólf og rúður, bregst við óhöppum o.fl.) .
 • Varsla í frímínútum og hádegishléi.
 • Svarar fyrirspurnum um týndan fatnað og óskilamuni.
 • Leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni
 • Önnur þau störf er skólastjóri felur.

Skólaliði/mötuneyti

Næsti yfirmaður: Matreiðslumeistari
Tilgangur starfs: að mötuneyti starfsmanna með gæði matar og næringargildi að leiðarljósi ásamt hagkvæmni í rekstri undir stjórn matreiðslumeistara.
Helstu verkefni:

 • Skipulagning, undirbúningur og framkvæmd við kaffi og matargerð.
 • Frágangur og þrifnaður á borðbúnaði og áhöldum í eldhúsi.
 • Aðstoð við undirbúning og móttöku gesta þegar tilefni eru til.
 • Undirbúningur og framkvæmd við sérstök tilefni svo sem upphaf og lok skólaárs, fyrir jól ofl.
 • Önnur þau störf sem starfsmanni kunna að vera falin af skólastjóra.

Stuðningsfulltrúi

Næsti yfirmaður: Deildarstjóri sérkennslu
Tilgangur starfs: Stuðningsfulltrúi er kennurum til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð
Helstu verkefni:

 • Vinnur eftir áætlun sem bekkjarkennari hefur útbúið í samráði við deildarstjóra sérkennslu, þroskaþjálfa eða annan ráðgjafa.
 • Auka færni og sjálfstæði nemenda, félagslega, námslega og í daglegum athöfnum. Aðstoðar þá við að ná settum markmiðum samkvæmt aðal - og/eða einstaklingsnámskrá og aðlagar verkefni að getu nemenda undir leiðsögn kennara.
 • Ýtir undir færni og sjálfstæði nemenda í námi og daglegum athöfnum með því að hvetja þá til að gera sem mest sjálfa og hrósa þeim fyrir viðleitni í þá átt. Leiðbeinir um rétta líkamsbeitingu, notkun skriffæra o.s.frv. Styrkir jákvæða hegðun nemenda í námi með því að hvetja þá til að gera sem mest sjálfa og hrósa þeim.
 • Aðstoðar nemendur við að fylgja settum reglum um hegðun, umgengni og vinnubrögð. Vinnur gegn neikvæðri hegðun t.d. með jákvæðri atferlismótun og með því að fylgja nemanda tímabundið afsíðis.
 • Aðstoðar nemendur við að klæðast, matast og aðrar athafnir daglegs lífs ef þeir eru ófærir um það sjálfir.
 • Leitast við að styðja nemendur í félagslegum samskiptum innan og utan kennslustofu. Veita þeim félagslegan stuðning, hlusta á frásagnir og reynslu þeirra og spjalla við þá þegar aðstæður leyfa.
 • Fylgir nemendum á ferðum um skólann, í sund, í frímínútur og vettvangsferðir og aðstoðar eftir þörfum.
 • Situr fag - og foreldrafundi eftir því sem við á.
 • Getur eftir aðstæðum einnig sinnt öðrum nemendum í bekknum meðal annars til að kennari geti aðstoðað nemanda sem þarf séraðstoð og til að draga úr sérstöðu nemanda með sérþarfir.
 • Önnur þau störf sem skólastjóri felur.

Umsjónarmaður húsnæðis

Næsti yfirmaður: Skólastjóri
Tilgangur starfs: Að sjá um að skólabyggingin og umhverfi hennar sé umgengin og viðhaldið þannig að í henni geti farið fram eðlilegt skólahald.
Ábyrgðarsvið: Umsjónarmaður ber ábyrgð gagnvart skólastjóra á viðhaldi og ræstingu skólahúsnæðis, skólalóðarinnar, húsbúnaði, leiktækjum og girðingum á lóð.
Helstu verkefni:

 • Verkstjórn ræstingarfólks og annarra starfsmanna sem skólastjóri felur honum. Ber ábyrgð á skráningu yfirvinnutíma þeirra gagnvart skólastjóra. Hefur eftirlit með gæðum ræstingar.
 • Sér um að húsnæði, allur búnaður og lóð skólans séu ávallt í fullnægjandi ástandi og aðgengilegt fyrir starfsfólk og nemendur. Sér um að skólahúsnæðið sé opið við upphaf skóladags og ber ábyrgð á frágangi húsnæðis í lok skóladags.
 • Hefur umsjón með öryggis - og eftirlitsbúnaði. Sinnir almennu viðhaldi.
 • Kallar til iðnaðarmenn til stærri verka skv. beiðnakerfi Menntasviðs Reykjavíkurborgar og hefur eftirlit með starfi þeirra.
 • Sér um innkaup á ræstingarvörum og öðru er varðar verksvið viðkomandi og einnig að gjaldaliðir séu innan fjárheimilda.
 • Vinnur að viðhaldsáætlun fyrir skólahúsnæði í samvinnu við skólastjórnendur og Fasteignastofu og fylgir eftir verkframvindu.
 • Hefur eftirlit með nemendum þegar aðstæður kalla á slíkt og leiðbeinir í samskiptum og umgengni
 • Önnur þau störf er starfsmanni kunna að vera falin af skólastjóra.

Skólaliði

Næsti yfirmaður: Umsjónarmaður
Tilgangur starfs: Gæsla og þrif á húsnæði og eigum skólans. Veita aðstoð við mismunandi viðfangsefni og þjónustu við nemendur og starfsfólk.
Helstu verkefni:

 • Leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni.
 • Almenn störf við þrif á skólahúsnæði og skólalóð.
 • Svarar fyrirspurnum um týndan fatnað og óskilamuni.
 • Ýmis tilfallandi störf svo sem við tiltekt og frágang.
 • Almenn störf við vörslu á göngum og tilfallandi þrif á skólahúsnæði.
 • Varsla í frímínútum og hádegishléi.
 • Önnur þau störf er starfsmenni kunna að vera falin af skólastjóra.

Aðstoðarmaður á skólasafni

Næsti yfirmaður: Umsjónarmaður skólasafns. Umsjónarmaður skólans
Tilgangur starfs: Að veita aðstoð og þjónustu á upplýsingaveitu Laugarnesskóla
Helstu verkefni:

 • Halda röð og reglu á safninu
 • Móttaka og aðstoð við nemendur og starfsfólk við að finna gögn á safninu
 • Viðhald og viðgerð á bókum og gögnum
 • Umsjón í skólahúsnæði í frímínútum og hádegishléi
 • Almenn umsjón, eftirlit og tilfallandi þrif, tiltekt og frágang á göngum sal og snyrtingum í samráði við næsta yfirmann.
 • Svarar fyrirspurnum um týndan fatnað og óskilamuni.
 • Leiðbeinir börnum í samskiptum og umgengni
 • Önnur þau störf er starfsmanni kunna að vera falin af skólastjóra.

Leiðarljós starfsfólks Laugarnesskóla

 • Við komum jákvæð til vinnu og bjóðum samstarfsfólki og nemendum góðan daginn.
 • Við berum virðingu fyrir einstaklingum og verkum þeirra.
 • Við styðjum hvert annað, jafnt stjórnendur sem starfsmenn.
 • Við tileinkum okkur heiðarleika og sanngirni.
 • Við erum ákveðin í að hafa gaman af vinnu okkar.
 • Við komum fram við nemendur og foreldra af virðingu.
 • Við sýnum tillitssemi og þolinmæði.
 • Við erum stundvís.

Starfsmannasamtöl

Laugarnesskóli ætlast til að hver starfsmaður fái notið hæfileika sinna. Lögð er áhersla á faglega þróun starfsmanna með það að leiðarljósi að þeir geti betur sinnt starfi sínu, sjálfum sér og skólanum til hagsbóta.
Árlega fer starfsmaður í starfsmannasamtal sem stjórnendur skólans taka. Starfsmannasamtal er vettvangur fyrir starfsmanninn og yfirmanninn til að ræða saman um starfið, þar sem gætt er jafnræðis og þagmælsku. Litið er á starfsmannasamtöl sem aðferð til að fá fram óskir og athugasemdir starfsmanna varðandi vinnustaðinn og koma skilaboðum til starfsmanns um hvers óskað er af honum. Starfsmannasamtöl skulu líka leiða í ljós óskir starfsmanns um starfsþróun sem reynt verður að uppfylla eftir því sem aðstæður leyfa. 

 

Prenta | Netfang