Skip to content

Skólareglur

Skólareglur Laugarnesskóla eru unnar með hliðsjón af og í samræmi við 14. grein laga um grunnskóla nr.
91/2008, reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og
verklagreglur Reykjavíkurborgar um þjónustu við grunnskólanema með fjölþættan vanda.

Í Laugarnesskóla er lögð áhersla á samvinnu allra sem þar starfa við að byggja upp jákvæðan starfsanda og
leysa ágreining friðsamlega, af umburðarlyndi og virðingu við alla. Undanfarin ár hefur verið innleitt
heildstætt agakerfi PBS, sem miðar að því að allir starfsmenn skólans komi að mótun og viðhaldi æskilegri
hegðun í skólanum. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að hver og einn virði náunga sinn sem sjálfan
sig og trufli ekki aðra við vinnu sína.

Laugarnesskóli vill í hvívetna haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika
sinna. Í skólanum er unnið eftir einkunnarorðunum lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur, og ósk eru
skólareglur tengdar þessum meginstoðum. Til að tryggja gott skólastarf setjum við í Laugarnesskóla okkur
starfsreglur sem gilda á skólatíma. Kennarar kynna nemendum skólareglurnar og ræðir mikilvægi þeirra í
skólasamfélaginu. Að hausti er farið vel yfir reglurnar en jafnframt eru þær rifjaðar upp síðar eftir efnum
og aðstæðum. Í samvinnu við heimilin vill starfsfólk skólans leitast við að vera nemendum góðar
fyrirmyndir og leggja áherslu á að efla siðferðisvitund og ábyrga hegðun þeirra.

Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna
Laugarnesskóli er Réttindaskóli UNICEF. Það þýðir að skólinn hefur Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna
að leiðarljósi í öllu starfi og stefnumótun en samkvæmt 3. grein Barnasáttmálans eiga allar ákvarðanir
byggjast á því sem er börnum fyrir bestu.

3. grein Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.
Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga
að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.
12. grein Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til
skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin
málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.
13. grein Tjáningarfrelsi
Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum
annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.
18. grein Uppeldi og þroski
Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á uppeldi barna sinna og skulu taka mið af því sem börnunum er fyrir
bestu. Stjórnvöldum ber að veita foreldrum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til
þess að byggðar séu upp stofnanir og þjónusta veitt til umönnunar barna.
19. grein Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun,
skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri
meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.

Samskipti og framkoma
Grunnskóli er vinnustaður nemenda og þeirra annað heimili. Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á
kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og
almennri vellíðan. Allir nemendur eiga rétt á að fá að stunda nám við skólann í friði og öryggi. Allir
nemendur eiga rétt á að koma skoðunum sínum á framfæri.
Nemendur bera ábyrgð á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Nemendum ber
að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og
fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

● Við hrósum fyrir það sem vel er gert og hjálpumst að við að laga það sem miður fer.
● Við komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur.

Góð umgengni innandyra
Nemendum ber að ganga vel um húsnæði og skólalóð, virða þær reglur sem settar eru og fara að
fyrirmælum starfsfólks. Nemendum og starfsfólki ber að sýna prúðmannlega framkomu og bera virðingu
fyrir öllu umhverfi sínu

● Við heilsum og kveðjum á hæverskan hátt og sýnum hvert öðru virðingu í orðum og gerðum.
● Við göngum ávallt hægra megin í stigum og á göngum
● Við göngum hljóðlega um skólahúsnæðið
● Við gætum þess að það ríki vinnufriður á sameiginlegum vinnusvæðum.
● Við bíðum í röð þangað til kemur að okkur
● Við hengjum yfirhafnir á snaga og röðum skóm snyrtilega.

Góð hegðun í matsalnum
● Við göngum í röð frá skólastofu í matsal
● Við bíðum í röð eftir því að komi að okkur
● Við sitjum prúð á meðan við mötumst
● Höfum hljótt meðan borðað er.
● Við göngum snyrtilega frá þegar við erum búin að borða og förum aftur í stofuna eða í
frímínútur.

Góð hegðun utandyra
Samskipti nemenda í útivist skulu einkennast af félagsanda, tillitssemi og virðingu fyrir umhverfi,
skólafélögum og starfsfólki.

● Við tökum tillit til annarra í frímínútum.
● Við göngum vel um trjágróður og leiktæki.
● Ef við verðum vör við að einhverjir eru að brjóta skólareglur snúum við okkur til starfsmanna
● Við virðum rétt annarra til að fá að vera í friði.
● Við komum inn strax og skólabjallan hringir.
● Við köstum einungis snjó á afmörkuðu leiksvæði.
● Við látum hjól, hlaupahjól eða línuskauta vera kyrr í frímínútum.

Nemendur eiga að vera á skólalóð í frímínútum og halda sig á fyrirfram ákveðnum svæðum. Boltavöllum
er úthlutað eftir ákveðnu kerfi og ber nemendum að virða rétt annarra til notkunar þeirra. Hætta skal
leikjum þegar skólabjalla hringir og fara inn. Nemendum ber að fara í útivist í frímínútum.. Ef nemandi
þarf að vera inni af einhverjum orsökum geta foreldrar óskað þess og þurfa að senda skriflega beiðni um
slíkt til umsjónarkennara.

Góð hegðun í ferðum á vegum skólans
Skólareglur Laugarnesskóla gilda i öllum ferðum. Nemendur eru fulltrúar skólans í þeim ferðalögum sem
farin eru á vegum hans. Þeim ber að hlíta sömu reglum á ferðalögum sem í skólanum. Komist nemandi af
einhverri ástæðu ekki með í skipulagðar vettvangs- eða nemendaferðir er honum ætlað að mæta í skólann
til annars skólastarfs. Nemendur og foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar um fyrirhuguð
ferðalög/vettvangsferðir tímanlega. Ef ferðalag á vegum skólans stendur yfir nótt þarf skriflegt leyfi
foreldra/forráðamanna. Hafi málum nemanda verið vísað til skólastjórnenda vegna brota á skólareglum er
það ákvörðun skólastjórnar í samráði við umsjónarkennara hvort viðkomandi nemandi fær heimild til
þátttöku í ferð á vegum skólans. Ávallt skal gera ráðstafanir til þess að nemandinn fái umönnun eða
kennslu á meðan á ferðinni stendur og tilkynna foreldrum/forráðamönnum ástæður og tilhögun. Gerist
nemandi sekur um brot á skólareglum eða landslögum þar sem hann er á vegum skólans verður hann
sendur heim á kostnað foreldra / forráðamanna sinna.

Verklagsreglur um líkamlegt inngrip
Verklagsreglur skólans um líkamlegt inngrip í mál nemenda eru byggðar á leiðbeiningum Skóla- og
frístundasviðs Reykjavíkur um túlkun 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila
skólasamfélagsins í grunnskólum.
Nemendur og foreldrar skulu upplýstir um verklagið í upphafi hvers skólaárs um leið og aðrar skólareglur
eru kynntar.
Starfsfólki skólans eða öðrum sem koma fram fyrir hans hönd er bannað að beita nemendur líkamlegum
refsingum
Líkamlegt inngrip í aðstæður er einungis er leyfilegt verði að grípa inn í atburðarás sem valdið gæti
líkamstjóni eða skaða, eða stórfelldu eignatjóni. Því skal einungis beitt í ítrustu neyð þegar ljóst er að aðrar
leiðir duga ekki til.
Áður en gripið er inn í aðstæður skal reyna af fremsta megni að aðvara þann sem fyrir því verður og gefa
honum kost á að láta af óæskilegri hegðun sinni. Gerist það ekki má grípa inn í. Sjái starfsmaður fram á að
hann ráði ekki við aðstæður einn síns liðs skal hann kalla til aðstoð annarra starfsmanna.
Láta skal af inngripi þegar hætta er liðin hjá.
Þurfi að beita nemanda líkamlegu inngripi skal það tilkynnt umsjónarkennara tafarlaust og foreldrar
upplýstir um málið. Einnig ber að upplýsa skólastjórnendur um málið

Atvik sem leiðir til líkamlegs inngrips telst að öllu jöfnu vera 3. stigs agabrot samkvæmt skólareglum nema
ef um sérstaklega alvarleg mál en þá telst það 4. stigs brot og skal fara með það sem slíkt.

Öryggisatriði
Af öryggisástæðum er þess óskað að reiðhjól séu búin nagladekkjum þegar hálka er eða snjór. Samkvæmt
umferðalögum á allur búnaður á reiðhjólum að vera í lagi og að nemendur séu með hjálma. Það sama
gildir um hjólabretti, hlaupahjól og línuskauta.
Reiðhjól, hlaupahjól, línuskautar og hjólabretti eiga að vera læst og ónotuð á skólatíma nema með leyfi
kennara eða skólastjórnenda.

Peningar, tæki og önnur verðmæti
Nemendum er óheimilt að koma með peninga í skólann að þarflausu. Verðmæti skulu ekki skilin eftir í
fatnaði á göngum eða í búningsklefum. Verðmæti sem nemendur taka með sér í skólann eru á ábyrgð
foreldra/forráðamanna. Valdi nemandi skemmdum á búnaði og tækjum skólans, starfsfólks eða
skólafélaga skulu forráðamenn bæta tjónið. Skólinn ber ekki ábyrgð á reiðhjólum néhlaupahjólum sem
nemendur koma á í skólann. Öll mál sem tengjast skemmdum verða foreldrar að gera upp sín í milli.
Nemendum ber að fara vel með námsgögn sem þeim eru fengin. Týni nemandi bók eða kennslutæki sem
hann ber ábyrgð á eða skemmi af ásettu ráð, ber forráðamönnum að bæta skaðann.

Reglur um tækjanotkun
Nemendur í 3.-6. bekk hafa spjaldtölvu til afnota í skólanum en yngri nemendur hafa aðgang að slíkum tækjum endrum og sinnum. Notkun tækjanna er undir verkstjórn kennara.
Síma og önnur raftæki nemenda á að geyma í skólatösku og stilla þannig að þau gefi ekki frá sér hljóð, hvort sem er á kennslutíma eða í frímínútum.

Hollusta og næring
Nemendur eiga þess kost að kaupa heita máltíð í hádeginu en greiðsla fyrir matinn er innheimt
mánaðarlega fyrirfram. Þeir sem ekki eru í mataráskrift hafi með sér hollt nesti sem þeir neyta í matsal.
Nemendur skulu koma með hollt morgunnesti og mælst er til að þeir komi með ávexti og grænmeti.
Sælgæti, sætabrauð og gosdrykkir eru ekki leyfðir í skólanum eða í ferðum á vegum hans nema við sérstök
tækifæri. Neysla matar og drykkjar er óheimil á göngum skólans.

Reglur um skólasókn
Stundvísi
Nemendum er skylt að sækja grunnskóla sbr. 3. gr. grunnskólalaga. Góð skólasókn er nemandanum
mikilvæg ef námið á að skila árangri. Foreldrum/forráðamönnum ber skylda til þess að börn þeirra stundi
skólann af alúð og samviskusemi. Mikilvægt er að nemendur temji sér stundvísi og sýni námi sínu
virðingu. Skólasóknareinkunn birtist í Mentor og eru foreldrar/forráðamenn hvattir til að skoða hana
reglulega. Yfirlit yfir skólasókn nemenda eru send í tölvupósti mánaðarlega.
Ástundun
● Við upphaf hverrar annar byrjar hver nemandi með skólasóknareinkunnina 10. Komi nemandi til
kennslustofu á eftir kennara og kennsla er hafin telst hann seinn.
● Hvert sinn sem nemandi mætir of seint dragast 0.2 frá skólasóknareinkunn.
● Við hverja óheimila fjarvist eru 0,4 dregnir frá einkunninni og komi nemandi 15 mínútum of
seint eða meira skráist það sem óheimil fjarvist.
● Sé nemanda vísað úr tíma dragast 0,7 frá einkunninni. Sé mætingum ábótavant, nemandi
óstundvís eða skrópar, verður gripið til aðgerða sem hér segir:
● Strax og einkunn fyrir ástundun fer niður fyrir 9,0 sendir umsjónarkennari foreldrum sent bréf og
síðan aftur ef einkunn fer niður fyrir 7,0.
● Fari einkunn niður fyrir 6,0 eru foreldrar boðaðir á fund umsjónarkennara og deildarstjóra.
● Ef einkunn í ástundun fer niður fyrir 5,0 eru foreldrar boðaðir á fund umsjónarkennara og
skólastjórnenda.
Beri þessar aðgerðir ekki tilætlaðan árangur er ástundun nemandans lögð fyrir Nemendaverndarráð
skólans þar sem ákvörðun er tekin um framhald.
Ef ekki næst viðunandi árangur óskar skólastjóri og/eða foreldrar eftir ráðgjöf og
þjónustu frá þjónustumiðstöð hverfisins.
● Fulltrúi þjónustumiðstöðvar vinnur með skólastjóra og foreldrum að lausn málsins.
● Finnist ekki viðunandi lausn fyrir nemandann þá er málið tilkynnt til Barnaverndar Reykjavíkur og
skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
● Teymi stofnað um málið. Barnavernd Reykjavíkur leiðir teymið og ber ábyrgð á vinnu þess.

Forföll og leyfi
Forföll nemenda þarf að tilkynna strax að morgni. Ef misbrestur verður á því er hringt heim til nemenda
til að kanna ástæðu fjarveru. Forföll sem ekki eru tilkynnt samdægurs verða skráð sem óheimil fjarvist.
Forföll nemanda sem skráður er veikur þarf að tilkynna daglega. Umsjónarkennari getur veitt leyfi í einn
dag en ef um fleiri daga er að ræða skal sækja um það í gegnum Mentor og er leyfið þá háð samþykki skólastjórnenda. Sé sótt um leyfi í fleiri en 10 kennsludaga í senn skal nemendaverndarráð skólans fjalla um umsóknina. Foreldrar/forráðamenn bera ábyrgð á að nemandi vinni upp það nám sem þeir
verða af í leyfum.

Viðbrögð við agabrotum
Ávallt skal tekið á agabrotum af fyllstu alvöru í samvinnu allra starfsmanna skólans. Áhersla er lögð á að
umsjónarkennari ræði brotið við nemandann og hjálpi honum að leysa farsællega úr málum sínum um leið
og þau koma upp. Ef mál koma upp hjá sérgreinakennara þá ræðir hann við nemandann og gerir
umsjónarkennara grein fyrir því. Sama gildir um mál sem upp koma í frímínútum, þau ber að tilkynna
umsjónarkennara. Komi til þess að víkja þurfi nemanda úr tíma skal honum komið í umsjá starfsmanns
skólans. Sé nemanda vísað úr tíma eru forsjáraðilar upplýstir um ástæður þess.

1. stigs agabrot.

Ef nemandi:

● ögrar, þrasar og lendir í rifrildi
● truflar athafnir, leiki eða vinnu annarra
● gengur illa um
● notar særandi, niðrandi orðbragð eða
hæðni

Viðbrögð:

● Starfsmaður ræðir við nemandann,
honum er leiðbeint og lögð áhersla á að
hann skilji hvaða reglu hann braut.
● Nemandinn endurtekur regluna
● Sé um ítrekað brot að ræða lætur
umsjónarkennari foreldra vita símleiðis.

2. stigs agabrot

Ef nemandi:

● neitar að fylgja fyrirmælum
● er ókurteis
● hrekkir og stríðir öðrum
● lendir í stimpingum

Viðbrögð:

● Starfsmaður ræðir við nemandann og
lætur umsjónarkennara vita.
● Umsjónarkennari upplýsir forsjáraðila.
● Sé um ítrekað brot að ræða boðar
umsjónarkennari foreldra til fundar

3. stigs agabrot

Ef nemandi:

● sýnir ógnandi hegðun
● lendir í slagsmálum
● skemmir eigur annarra eða skólans
● sýnir ítrekuð 2. stigs brot

Viðbrögð:

● Nemandi er færður til deildarstjóra og
rætt við hann.
● Umsjónarkennari/deildastjóri boðar foreldra til
viðtals.
● Málinu vísað í lausnateymi

4. stigs agabrot

Ef nemandi:

● sýnir alvarlegt ofbeldi
● stelur
● fremur innbrot í skóla
● fremur alvarleg skemmdarverk

Viðbrögð:
Þegar 4. stigs agabrot koma upp metur
skólastjóri hverja af neðangreindum leiðum
hann velur að fara:
Leið 1 Lausnarleið skóla:
● Skólastjóri tilkynnir foreldrum um málið.
● Nemandi sendur heim í samráði við foreldra á meðan málið er til frekari skoðunar.
● Ef um ofbeldi er að ræða hefur skólastjóri samband við foreldra þolanda. Ef ekki er um
kæru að ræða leitar skólastjóri heimildar foreldra til lausnar málsins innan skólans.
● Skólastjóri hefur samband við þjónustumiðstöð hverfisins og óskar eftir aðkomu þeirra að
málinu.
● Fundað með geranda og foreldrum hans um framhald málsins. Ráðgjöf og þjónusta boðin
frá þjónustumiðstöð hverfisins.
● Tilkynning send til Barnaverndar Reykjavíkur ef talin er þörf á.
Lausnarleið ákveðin í samráði við aðila.
Finnist ekki viðunandi lausn er málinu vísað til Barnaverndar Reykjavíkur sem heldur utan um
málið á meðan leitað er frekari lausnar
Leið 2 Lögregla:
● Skólastjóri tilkynnir foreldrum um málið.
● Skólastjóri tilkynnir lögreglu um málið og fer fram á rannsókn málsins.
● Skólastjóri grípur til tímabundinnar brottvikningar nemanda. Það tilkynnt foreldrum og
skólanefnd.
● Lögregla rannsakar málið. Um framhald máls fer samkvæmt niðurstöðu
lögreglurannsóknar.
● Ef lögreglurannsókn leiðir í ljós að um minniháttar mál er að ræða fer framhald málsins
samkvæmt lausnarleið skóla.
● Ef lögreglurannsókn leiðir í ljós að um alvarlegt lögbrot hefur verið að ræða fer um
framhald málsins samkvæmt eftirfarandi ferli:
● Lögregla tilkynnir Barnavernd Reykjavíkur um málið, sem vinnur í málinu. Fulltrúi
Barnaverndar Reykjavíkur kallar til fundar fulltrúa þjónustumiðstöðvar hverfisins,
Menntasviðs Reykjavíkur, skóla og foreldra viðkomandi nemanda. Aðilar vinna að lausn
málsins.
● Teymi stofnað um málið þar sem Barnavernd Reykjavíkur leiðir teymið og ber ábyrgð á
vinnu þess. Á meðan unnið er í málinu getur nemandinn verið í heimaskóla, tímabundinni
brottvísun eða í öðru sérúrræði.
Finnist ekki viðunandi lausn geta aðilar vísað ágreiningi til úrlausnar og úrskurðar til Mennta-og
menningarmálaráðuneytisins.

PBS
PBS (Positive behavior support) er heildstætt vinnulag þar sem hvatt er til jákvæðrar hegðunar með
kerfisbundnum hætti í stað þess að einblína á neikvæða hegðun og refsingar. PBS er þríþætt kerfi sem nær
til alls skólasamfélagsins. Það felur í sér stuðningskerfi fyrir skólann í heild, bekki/hópa og einstaka
nemendur.
Vinnulagið miðar að því að allir starfsmenn skólans fái þjálfun í að móta og viðhalda æskilegri hegðun hjá
nemendum. Væntingar til hegðunar eru gerðar mjög skýrar og aðgengilegar.
Markmið með PBS
● Auka félagsfærni og námsárangur með því að skilgreina, kenna og styðja við æskilega hegðun.
● Draga úr óæskilegri hegðun með því að búa til skýrar reglur um samskipti. Áhersla er lögð á að sjá
fyrir og fyrirbyggja hegðunarvanda með skýrum agaferli
● Samræma aðgerðir og vinnulag starfsfólks skóla til þess að auka æskilega hegðun og koma í veg
fyrir óæskilega hegðun.
Allt starfsfólk skólans fær kennslu og þjálfun í að þekkja æskilega hegðun nemenda í öllum
skólaaðstæðum. Síðan er nemendum kennt hvaða væntingar eru gerðar til þeirra. Hegðun er æfð og með
notkun markviss hróss, viðurkenningar og hvatningarkerfis (t.d. með notkun smella) eru nemendur hvattir
til að sýna jákvæða hegðun. Í skólabyggingunni eru hengdar upp myndir í augnhæð nemenda sem sýna
margar af þeim reglum og væntingum sem gilda og sem hjálpa nemendum að muna hvernig þeir eiga að
haga sér.
Óæskileg hegðun nemenda er skilgreind og hún stöðvuð markvisst skv. fyrirfram gerðum agaferli skólans.
Lögð er áhersla á að kenna nemendum aðferðir til að leysa vanda sem upp kemur.
Náin samvinna við foreldra og aðstandendur er mikilvæg til að stuðla að góðri hegðun hjá nemendum, sem skilar sér í bættum námsárangri, félagsþroska og góðri líðan.