Heimanám

Heimanámi er ætlað að gefa forráðamönnum tækifæri til að fylgjast með hvernig börnum þeirra gengur að takast á við nám og gefa foreldrum tækifæri til að fylgjast með því hvaða viðfangsefni verið er að fjalla um í skólanum. Í aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að foreldrar og forráðamenn beri frumábyrgð á uppeldi barna sinn en jafnframt stendur þar að þeir hópar sem mynda skólasamfélagið vinni vel saman. Einn þáttur þessarar samvinnu er heimanám.

Markmið heimanáms í Laugarnesskóla er að:

 • æfa lestur
 • nemendur þjálfi enn frekar og rifji upp það sem kennt hefur verið í skólanum
 • lesa og kynna sér námsefni til undirbúnings
 • nemendur læri að taka ábyrgð á verkum.
 • auka og dýpka skilning á námsefninu
 • venja nemendur við ákveðin vinnubrögð og ögun í námi.
 • vinna upp það sem ekki náðist að klára í kennslustundum
 • nemendur öðlist smátt og smátt færni í að undirbúa sig fyrir skólann
 • veita foreldrum/forráðamönnum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með námibarna sinna

Vikuáætlanir

Í Laugarnesskóla fá allir nemendur vikuáætlun í heimanámi. Vikuáætlanir eru settar inn á Mentor. Þar kemur fram áætluð heimavinna nemenda, ýmsar upplýsingar og tilkynningar. Þetta er gert til að nemendur og foreldrar þeirra geti skipulagt heimanámið.

Hlutverk foreldra í heimanámi

Mikilvægasta hlutverk forráðamanna er að skapa námsumhverfi heima. Þeir þurfa því að aðstoða börn sín við skipulagning og sýna inntaki námsins áhuga. Því er afar mikilvægt að foreldrar leiðbeini, örvi og hvetji börnin, allt eftir því hvað við á í hverju tilfelli.

Hlutverk nemenda í heimanámi

Nemendur skipuleggja heimavinnuna með foreldrum, gefa því forgang og skila því á réttum tíma. Nemendur þurfa að gera sér grein fyrir að þeir hafa samþykkt að taka að sér verk og þurfa að sýna ábyrgð gagnvart því. Vinnuramminn er ein vika nema samið sé um annað. Áætlunargerðin er mjög mikilvæg og kennir barninu að skipuleggja sig. Allar áætlanir geta breyst og það er eins með heimavinnuáætlunina.

Hutverk kennara gagnvart heimanámi

 • Gefur greinargóðar upplýsingar um heimanámið í vikuáætlun
 • Sér til þess að nemendur viti hvernig á að leysa verkefnin og þekki markmiðin.
 • Gerir kröfur um vönduð vinnubrögð.
 • Fer yfir heimanámið.
 • Hefur samband við foreldra/forráðamenn ef þörf er á.

Heimanám er mikilvægur hluti af námi nemenda. Það stuðlar að betri námsárangri og því er nauðsynlegt að nemendur skilji mikilvægi þess að vinna vel og skipulega. Gott samstarf milli heimilis og skóla er mikilvægt og getur skipt sköpum um árangur í námi. Áhugi, aðstoð og hvatning frá foreldrum ber alltaf árangur.

Yngri nemendur fá heimanámsáætlanir hjá kennara og ber foreldrum að fylgjast með þeim. Nauðsynleg áhöld og námsgögn eiga alltaf að vera í skólatöskunni. Nemendur þurfa gott næði og góðar aðstæður til að geta sinnt heimanáminu vel. Vel skipulagður fastur tími, helst fyrir kvöldmat, hentar flestum nemendum best til að vinna heimanámið. Þannig má koma í veg fyrir að vinnunni sé frestað fram á síðustu stundu. Foreldrar þurfa að fylgjast vel með því að heimanámið sé unnið.

Prenta | Netfang