Skólastefna Laugarnesskóla

Hlutverk Laugarnesskóla

Hlutverk Laugarnesskóla er að mennta nemendur með því að skapa þeim fjölbreytt námsumhverfi sem einkennist af samvinnu, lífsgleði og kærleik.

Sérstaða Laugarnesskóla

 • Hlýlegt og aðlaðandi umhverfi og gott samstarf við foreldra og grenndarsamfélag
 • Fjölbreyttir kennsluhættir og skapandi skólastarf
 • Alúð lögð við menningararf skólans
 • Umhverfisvitund
 • Námsmat sem endurspeglar fjölbreytileika nemenda og styrkir þá í sjálfstæðum vinnubrögðum
 • Jákvæð agastjórnun
 • Vel menntað starfsfólk

Gildi Laugarnesskóla

Lífsgleði: Að hafa gaman af lífinu í leik og starfi. Vera jákvæður því þá gengur allt betur.
Nám: Nám í víðasta skilningi er bóklegt, verklegt, nám í mannlegum samskiptum og almennri þekkingu. Að tileinka sér nýja reynslu, hegðun, kunnáttu eða færni.
Samvinna: Við erum ein heild. Að hjálpast að á að vera sjálfsagt. Samvinna er lykill að árangri og gerir starfið einfaldara. Við víkkum sjóndeildarhringinn, vinnum hraðar og njótum samvistar með samvinnu.
Kærleikur: Skólinn er griðastaður þar sem tillitssemi og hlýja ræður ríkjum. Leitumst við að leiðbeina nemendum þannig að þeir rækti með sér samkennd með öllum.

Gildin í bundnu máli

Lífsgleði þína láttu
ljóma eins og sól að vori.
Götu þína gakktu
með geisla í hverju spori.

Nám er næring sálar
nýtist lífið allt.
Þótt gangir götur hálar,
þú getur, vilt og skalt.

Með samvinnu getum við sigrað flest,
sigri er gott með öðrum að njóta.
Eitt finnst þó mörgum allra best,
umbun af góðum verkum hljóta.

Kærleikurinn kveikir eld
í hverju hjarta.
Lýsir eins og ljósið bjarta
lætur hverfa myrkrið svarta.

Höfundur: Ingólfur Karlsson

Framtíðarsýn Laugarnesskóla

Í Laugarnesskóla hafa stjórnendur skýra framtíðarsýn og forgangsröðun. Þeir hafa að leiðarljósi jákvætt viðhorf til starfsmanna sinna, nemenda og foreldra þeirra.

Þeir bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna, nemenda og vinna með þeim að settum markmiðum. þar er tekið á hegðun með jákvæðum og kerfisbundnum hætti til að auka félagsfærni og nám með því að skilgreina, kenna og styðja við æskilega hegðun. Lögð er áhersla á virkt upplýsingaflæði og að allir sem vinna í skólanum, nemendur og starfsfólk séu upplýstir um hvers konar vinnu og framkomu er vænst af þeim. Skólastefna skólans á að vera í takt við samfélagsþróunina, vera í stöðugri endurskoðun og samkvæmt menntastefnu Menntaráðs.

Starfsfólk Laugarnesskóla:

 • verður í fararbroddi í að mæta hverjum einstaklingi á hans forsendum
 • leggur áherslu á að nemendur nái árangri, virði reglur, beri ábyrgð og sinni skyldum sínum
 • leggur sig fram um að skapa uppbyggjandi starfsumhverfi þar sem metnaður ríkir og virðing er borin fyrir hverjum og einum
 • sinnir símenntun og tekur þátt í starfsþróun
 • ætlar að standa vörð um sérkenni skólans
 • leggur áherslu á samábyrgð heimila og skóla við að mennta nemendur með það að leiðarljósi að útskrifa þá með jákvæða sjálfsmynd sem kunna að axla ábyrgð og nýta tímann vel
 • ætlar að auka fjölbreytni í kennsluháttum og þróa námsmat sem endurspeglar fjölbreytileika nemenda og styrkir þá í sjálfstæðum vinnubrögðum

Í Laugarnesskóla er allt starfsfólk samstíga og vinnur saman að stefnumörkun og forgangsröðun. Skólastarfið á að vera uppbyggjandi þar sem metnaður ríkir og virðing er borin fyrir hverjum og einum. Kennsluhættir í Laugarnesskóla einkennast af fjölbreytni þar sem skólinn reynir að koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga nemenda. Lögð er áhersla á að auðga list- og verkgreinar og að samþættingu námsgreina. Skólaumhverfi skólans á að vera hlýlegt og aðlaðandi fyrir alla þá sem tengjast skólanum. Einkunnarorð skólans lífsgleði, nám, samvinna og kærleikur eru kjarni skólastefnu Laugarnesskóla. Það er framtíðarsýn skólans að leitast við að vera í fararbroddi yngri barnaskóla og veita börnum alhliða menntun og þroska með mannrækt og manngæsku að leiðarljósi.

Í skólanum er unnið markvisst að því að koma á jákvæðum og góðum aga með því að vinna samkvæmt PBS vinnulagi. Nemendum er kennt að leysa ágreiningsmál friðsamlega og á jákvæðan hátt, taka tillit til annarra og skilja að engir tveir einstaklingar eru eins.

Til þess að öðlast færni í að leysa ágreiningsmál farsællega þurfa allir að temja sér umburðarlyndi og víðsýni. Lýðræðisleg vinnubrögð og virðing fyrir skoðunum annarra verða því leiðarljós starfsins í skólanum.

Nemendur eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið og samfélagið. Markmiðið er samkennd og virðing, færni í mannlegum samskiptum og aukinn skilningur.

Ávallt er leitast við að styrkja samkennd og samstarf starfsfólks, nemenda og foreldra. Einnig hefur skólinn þá framtíðarsýn að nýta menningarrætur sínar og halda í heiðri ýmsum hefðum sem hafa unnið sér sess í sögu skólans en um leið skapa nýjar hefðir fyrir komandi kynslóðir. Með markvissum hætti er sífellt reynt að nýta auðinn í grenndarsamfélaginu til að endurnýja og styrkja skólastarfið.

Stefnukort Laugarnesskóla

Stefnukort

Skipulag skólastarfsins

Skipulag kennslu innan árganga og milli árganga er í samstarfi stjórnenda og kennara. Nám og kennsla í Laugarnesskóla tekur mið af þeim lögum og reglugerðum sem um skólann gilda. Einnig er tekið mið af stefnu og starfsáætlun Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar eins og hún er hverju sinni, og sérstöðu skólans. Aðalnámskrá grunnskóla skilgreinir og lýsir sameiginlegum námsmarkmiðum sem Laugarnesskóla ber að stefna að og segir til um þann lágmarkstíma sem skólanum ber að bjóða nemendum í einstökum námsgreinum og námssviðum.

Markmið

Meginmarkmiðið skólastarfs í Laugarnesskóla er að líta á árganginn sem eina heild og kennarar árgangsins bera sameiginlega ábyrgð á nemendum. Markmið eru að:

stuðla að fjölbreyttum kennsluháttum, fjölbreyttri hópaskiptingu og skólaþróun
bæta árangur nemenda
leggja áherslu á list og verkgreinar
leggja áherslu á íþróttir, sund og útikennslu
skólaárið sé brotið upp með vettvangsferðum og grenndarsamfélagið skoðað
skipulagðir séu útivistardagar að vori og haust

Framkvæmd

Tímafjöldi nemenda í hverjum árgangi er samkvæmt viðmiðunarstundaskrá Aðalnámskrár grunnskóla. Í stundaskrárgerð er gert ráð fyrir að í hverjum árgangi séu samliggjandi tímar til að auðvelda skiptingu árgangsins í mismunandi hópa. Sveigjanleiki í stundaskránni gefur möguleika á að brjóta upp skólastarfið og vinna að heildstæðum verkefnum með hverjum árgangi og einnig verkefnum sem tveir eða fleiri árgangar vinna saman. Verkefni eins og útikennsla, val og árviss þemaverkefni er auðvelt að fella inn í stundaskrána. Þetta fyrirkomulag auðveldar að komið sé til móts við þarfir hvers og eins á fjölbreyttan hátt. Hópar geta því verið misfjölmennir eftir viðfangsefnum.

Skóladagurinn hefst klukkan 8:30 en nemendur geta komið í skólann kl. 8:00 og farið inn í stofur. Frímínútur eru tvisvar á dag og fara nemendur út en þrisvar sinnum í viku geta þeir valið að dansa í hádeginu í stað útiveru. Matarhlé er tuttugu mínútur og nemendur fá heitan mat í hádeginu og nær allir nemendur skólans eru í mataráskrift.

Í Laugarnesskóla er lögð áhersla á að nemendur kynnist nærumhverfi sínu og því fara þeir í lengri og styttri ferðalög með kennurum sínum á hverju skólaári. Skólasetur skólans, Katlagil, er sá staður sem nemendur fara oftast á til að fræðast um náttúruna og til að gróðursetja tré. Útikennsla eru fastur liður skólastarfsins. Lögð er áhersla á að kenna nemendum ýmsa útileiki og þekkja grenndarsamfélagið.

Sameiginleg ábyrgð á námi og líðan nemenda er grunnurinn að skipulagi skólans en umsjónarkennarar eiga öðrum fremur að fylgjast með námi og þroska allra nemenda sem þeir hafa umsjón með. Helstu verkefni umsjónarkennara Laugarnesskóla eru að:

 • hafa umsjón með og bera ábyrgð á faglegu starfi og framkvæmd kennslu og námsmati í nánu samstarfi og samvinnu við aðra kennara árgangsins
 • fylgjast vel með líðan og námsframvindu nemenda og bregðast við ef þurfa þykir
 • skipuleggja starf nemenda með gerð námsáætlana, kennsluáætlana og heimavinnuáætlana
 • halda utan um starf stuðningsfulltrúa inni í bekk í samstarfi við deildastjóra sérkennslu
 • bera ábyrgð á að einstaklingsnámsáætlanir séu gerðar fyrir einstaka nemendur
 • fylgjast með skólasókn nemenda og skrá reglulega í Mentor.is, mætingar og atburðadagbók
 • framkvæma og skrá námsmat, einkunnir og/eða umsagnir í Mentor.is
 • veita foreldrum reglulega upplýsingar um það starf sem fram fer
 • leita eftir góðu samstarfi og samvinnu við foreldra nemenda og veitir þeim upplýsingar um líðan, námsstöðu og framvindu
 • taka á öllum agamálum og misklíðarefnum sem upp koma í nemendahópnum og leita sér aðstoðar hjá lausnateymi skólans varðandi meðferð þeirra mála.

Skólaár Laugarnesskóla skiptist í þrjár annir og líkur hverri önn með foreldraviðtali þar sem nemendur mæta með foreldrum sínum til að fara yfir námsárangur og líðan.

Nám og kennsla

Í Laugarnesskóla er kennt samkvæmt grunnskólalögum, Aðalnámskrá grunnskóla og áherslum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Kennslan er skipulögð þannig að meginmarkmið og kjarnaefni er það sama fyrir allan bekkinn en einstakir nemendur geti unnið með það á mismunandi hátt, til dæmis hvað varðar hraða, efni og námshætti. Skólastarf Laugarnesskóla á að vera uppbyggjandi þar sem metnaður ríkir og virðing er borin fyrir hverjum og einum. Starfsfólk skólans leggur áherslu á, í samvinnu við foreldra, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með því að stuðla að víðsýni, umhyggju, jafnrétti, virðingu, sáttfýsi lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð. Fjölbreyttir kennsluhættir og skóli án aðgreiningar eru leiðarljós skólans í þeirri vinnu.

Í Laugarnesskóla:

finna nemendur að kennarar hafa miklar væntingar til þeirra um námsárangur og gera til þeirra raunhæfar kröfur
finna nemendur að starfsfólk skólans sýnir þeim hlýhug og umhyggju
vita nemendur um ábyrgð sína og skyldur
þekkja nemendur reglur um umgengni og vinnubrögð og fara eftir þeim
Markmið með námi og kennslu í Laugarnesskóla er að hver nemandi nái eins miklum árangri og mögulegt er. Til að koma á móts við ólíkar þarfir nemenda eru lögð áhersla á fjölbreytta kennsluhætti og fjölbreytt námsumhverfi þar sem einstaklingarnir geta fengið að njóta sín. Fjölbreyttar kennsluaðferðir koma til móts við nemendur á þann veg að sterkar hliðar hvers nemenda nýtast og fjölbreytt námsumhverfi gefur færi á að nemendur njóti sín í umhverfi sem hentar mismunandi námsstíl. Lögð er áhersla á að auðga verk- og listgreinar og á samþættingu námsgreina.

Umsjónarkennarar og sérgreinakennarar bera ábyrgð á námi nemenda sinna. Þeir setja markmið með kennslu sinni samkvæmt aðalnámskrá, skilgreina hvernig hún skuli útfærð og hvernig ætlunin sé að meta árangur nemenda.

Í Laugarnesskóla er lögð áhersla á nám við hæfi hvers og eins bæði í framkvæmd kennslunnar og í skólaþróun. Leiðarljósið er fjölbreyttir og skapandi starfshættir þar sem nemendur eru hvattir til að sýna frumkvæði, sjálfstæði í námi og að bæta árangur sinn. Lögð er áhersla á að nemendur læri að skipuleggja nám sitt undir leiðsögn kennara, setji sér markmið, leggi mat á vinnu sína og taki þannig ábyrgð á eigin námi. Meginstefna skólans er að kenna nemendum í námshópi eða í bekk.

Við gerð kennsluáætlana er stuðst við markmið aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein. Út frá þeim eru sett markmið fyrir viðkomandi námshóp og nemendum er ljóst hvert er stefnt og hvernig mati er háttað. Námsefnið er valið með tilliti til markmiða og þess gætt að hægt sé að uppfylla viðkomandi markmið Aðalnámskrár. Leiðarljósið er að nemendur fái tækifæri til að nálgast viðfangsefnin á fjölbreyttan hátt og þeir ýmist læri hver af öðrum með samvinnu, eða að viðfangsefnin efli frumkvæði og sjálfstæði þeirra í sjálfstæðum vinnubrögðum. Lögð er áhersla á skapandi starf og rík áhersla lögð á list- og verkgreinar. Mikilvægt er að vekja áhuga og forvitni nemenda til að gera tilraunir og draga ályktanir af þeim.

Misjafnt er hvernig kennsluaðferðir henta nemendum, aldurshópum og námsgreinum og vill skólinn koma til móts við þarfir nemenda með sveigjanleika í vinnuaðferðum. Mikil áhersla er lögð á að nemendur kynnist mismunandi vinnulagi á skólagöngu sinni. Þannig öðlast þeir menntandi reynslu og ættu því að geta gert sér betri grein fyrir því hvaða aðferðir henta þeim hverju sinni.

Gerðar eru kröfur um að nemendur sinni námi sínu vel. Markmið náms og kennslu eiga ávallt að vera nemendum sýnileg og stöðugt á að vera að rifja þau upp. Út frá almennum markmiðum setja nemendur sér markmið í samvinnu við kennara sína og foreldra. Auk þess er gert ráð fyrir að nemendur meti stöðu sjálfir sína með reglubundnu millibili. Þetta eykur ábyrgð þeirra á eigin námi. Þeir nemendur sem víkja frá, hvort sem það eru bráðgerir nemendur eða nemendur sem eiga við námserfiðleika að stríða, vinna eftir kennsluáætlunum sem unnar eru fyrir þá. Markmið eru einfölduð eða þau gerð erfiðari. Nemendur eru ólíkir, tileinka sér því nám á mismunandi hátt en námslegar þarfir einstakra nemenda geta þó verið þess eðlis að þörf sé á einstaklingskennslu eða kennslu í litlum hópi um lengri eða skemmri tíma. Þeir nemendur eiga kost á að sækja nám í námsver. Auk þess er atferlismótun í boði fyrir þá nemendur sem þurfa aðhald vegna hegðunar. Börn af erlendum uppruna og börn sem hafa búið lengi erlendis fá kennslu í íslensku og aðstoð við að ná tökum á skólagöngu sinni.

Þetta er í samræmi við ákvæði Grunnskólalaga og Aðalnámskrár grunnskóla um að grunnskólinn skuli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. Samkvæmt lögum um grunnskóla ber skólastjóri endanlega ábyrgð á skipulagi og kennslu nemenda.

Námsgögn

Námsgögnum er gerð skil og þau flokkuð. Námsgögn eru öll þau gögn er afmarka inntak náms. Við val námsgagna er haft að leiðarljósi að þau greiði sem best leiðina að settum markmiðum.

Í sumum tilvikum eru námsgögn notuð í því skyni að þjálfa grundvallarfærni, svo sem notkun ákveðins mælitækis, en önnur námsgögn þjóna þeim tilgangi að skýra mikilvæg hugtök eða þekkingaratriði sem best.

Sem dæmi um námsgögn má nefna námsbækur og kennsluleiðbeiningar, ýmsar handbækur, myndbönd, skyggnur, veggspjöld, líkön, verkefni, og margs konar efni fyrir verklega kennslu og tilraunir. Einstaklingsmiðaðir kennsluhættir í Laugarnesskóla felast ekki í því að auka aðgreiningu og koma á getuskiptingu heldur einkum og sér í lagi í að aðlaga nám og kennslu að hæfileikum og áhuga hvers og eins. Sveigjanlegt skólastarf, hefðbundin kennsla, uppgötvunarnám, hópastarf og margt fleira eru hugtök sem lýsa kennslunni í Laugarnesskóla.

Prenta | Netfang