Sérstaða Laugarnesskóla

Laugarnesskóli stendur við Kirkjuteig 24 í Reykjavík og er einsetinn grunnskóli fyrir nemendur í 1.- 6. bekk. Grunnmynd skóla. Einkunnarorð skólans eru lífsgleði, nám, samvinna, kærleikur. Skólahverfi Laugarnesskóla afmarkast af skólahverfi Háteigsskóla í suðri, Austurbæjarskóla í vestri og Langholtsskóla í austri. Skólinn er í útjaðri Laugardalsins og örstutt er í sundlaugarnar, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, Grasagarðinn, Laugardalshöll, Laugardalsvöll, skautasvellið og íþróttasvæði Þróttar/Ármanns. Laugarnes- og Laugalækjarskóli mynda saman grunnskóla Laugarneshverfis, annar starfar á barnastigi og hinn á unglingastigi. Laugarnesskóli er teiknaður af Einari Sveinssyni húsameistara og er einn af elstu skólum Reykjavíkur Hann tók til starfa 19. október 1935 og fyrsta árið voru tíu kennarar við skólann. Skólann sóttu 214 börn á aldrinum átta til þrettán ára, eitt barn var eldra. Fjöldi nemenda í Laugarnesskóla hefur verið breytilegur á milli ára. Fjölmennastur var skólinn á árunum 1950 og 1954 en þá voru tæplega 1800 nemendur í skólanum. Frá 1969 var hann eingöngu barnaskóli og frá haustinu 2002 fyrir 1. – 6. bekk. Frá því að hann hóf störf hafa ýmsar hefðir orðið til sem eru orðnar fastir liðir í skólastarfinu og margt er það sem skapar honum einstaka sérstöðu meðal grunnskóla Reykjavíkur. Má þar nefna listaverka- og náttúrugripasafn skólans, söng og leiklistarhefðir að ógleymdu Katlagili. Stefna skólans er að viðhalda grónum hefðum og þróa þær með það að leiðarljósi að nemendur skólans þroskist við að taka þátt í þeim.Við Laugarnesskóla starfa kennarar, þroskaþjálfi og aðrir starfsmenn sem sinna hinum ýmsum störfum í tengslum við skólahaldið. Einnig eru starfandi við skólann skrifstofustjóri, fjármálastjóri, umsjónarmaður, deildarstjórar, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri. Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Lögum samkvæmt starfar skólaráð við skólann og er hluti af stjórnkerfi hans.

Lærdómsumhverfi

Í Laugarnesskóla er allt starfsfólk samstíga og vinnur saman að stefnumörkun og forgangsröðun. Skólastarfið á að vera uppbyggjandi þar sem metnaður ríkir og virðing er borin fyrir hverjum og einum. Kennsluhættir í Laugarnesskóla einkennast af fjölbreytni þar sem skólinn reynir að koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga nemenda. Lögð er áhersla á að auðga list- og verkgreinar og að samþættingu námsgreina. Skólaumhverfi skólans á að vera hlýlegt og aðlaðandi fyrir alla þá sem tengjast skólanum.

Um Katlagil

Skólaselið í Katlagili í Mosfellsdal á sér yfir 50 ára sögu skógræktar, uppbyggingar og útikennslu. Kennarafélag skólans keypti landið árið 1949 fyrir nemendur og kennara skólans. Þangað er farið í dagsferðir að hausti og á vorin, auk þess sem 6. bekkur gistir þar eina nótt að hausti. Unnin eru fjölbreytt verkefni með áherslu á umhverfismennt og skógarfræðslu í samþættu námi. Nemendur læra um vistkerfi, sögu og jarðfræði dalsins og taka þátt í gróðursetningu og grisjun. Bekkir eiga sinn leynistað sem heimsóttur er árlega. Verkefnum sem unnin eru er safnað í möppur sem nemendur taka með sér heim við lok skólagöngu. Síðustu ár hefur Laugarnesskóli verið þátttakandi í landsverkefninu Lesið í skóginn með skólum, þar sem áhersla er lögð á skógarhirðu, nýtingu skógarafurða í skólastarfi og beina þátttöku nemenda í uppbyggingu á svæðinu. Vinnan í Katlagili hefur því þróast. Nemendur hafa útbúið göngustíg þar sem grisjað var í gegn um mismunandi trjátegundir og skógarreiti. Nemendur skoðuðu örnefni á svæðinu og útbjuggu skilti til merkingar. Úr efnivið skógarins hafa nemendur tekið þátt í brúarsmíði, smíðað bekki, o.fl. Nemendur hafa safnað fræjum og sáð, litlar plöntur eru nú í uppeldi. Nemendur taka virkan þátt í grisjun skógarins, bæði með því að kvista upp og að draga stærri tré út úr skóginum. Einnig hafa nemendur tekið þátt í brauðgerð yfir opnum eldi. Nemendur í 5. og 6. bekk læra tálgun og meðferð tálguhnífa í námsgreininni Lesið í skóginn, sem er hluti af list- og verkgreinakennslu. Til þessara verkefna er notaður ferskur viður, ýmist af skólalóð eða úr Katlagili. Síðast en ekki síst fá tækifæri til að njóta þess sem náttúran og skógurinn hefur upp á að bjóða í leik og starfi. Á næstu árum gerum við ráð fyrir að koma upp útikennslustofu og skýlum í Katlagili. Eins er gert ráð fyrir útikennslustofu á skólalóð og að virkja nemendur og jafnvel foreldra til að smíða borð og bekki úr timbri úr Katlagili fyrir skólalóðina. Árlega gróðursetja nemendur um 500 – 1000 trjáplöntur þar. Katlagilsferðirnar tengjast kennslu í náttúrufræði og umhverfismennt. Ákveðin verkefni eru unnin í hverjum árgangi auk þess sem til er verkefnamappa með tillögum að stærðfræðiverkefnum sem hægt er að vinna úti í Katlagili. 

Gisting 6. bekkja í Katlagili

Að hausti fara 6. bekkingar í sólarhringsferð í Katlagil. Umsjónarkennari og aðstoðarmaður, fara með hópinn. Farið er með hópferðarbíl um hádegisbil og komið til baka um svipað leyti daginn eftir. Skólinn greiðir ferðakostnað. Nemendur greiða gistigjald og síðan er það ákvörðun hverju sinni hvort gerð eru sameiginleg innkaup eða hvort hver komi með mat fyrir sig. Brýnt er að kynna umgengisreglur hússins fyrir nemendum og fylgja þeim vel eftir þannig að húsið sé í lagi fyrir þá sem á eftir koma. Gott er að fara a.m.k. sólarhring áður en fyrstu gestir koma og setja hita á húsið og athuga hvort eitthvað vantar. Æskilegt er að senda upplýsingar um ferðina til foreldra viku áður en farið er. Ef nemandi fer ekki með í ferðina er honum séð fyrir verkefnum í skólanum. Loftmynd af katlagili

Laugarnes á ljúfum nótum

Laugarnesskóli tekur þátt í starfi grasrótarsamtakanna “Laugarnes á ljúfum nótum”. Þar vinna saman leikskólarnir og grunnskólarnir í hverfinu, foreldrafélögin, Laugarneskirkja, Knattspyrnufélagið Þróttur, Íþróttafélagið Ármann, TBR, Skátafélagið Skjöldungar, KFUM og K, Sundfélagið Ægir og félagsmiðstöðin Þróttheimar. Markmið þessara samtaka er að efla hverfisvitund og samkennd barna og fullorðinna í Laugarneshverfi og stuðla að samræminu á framboði tómstunastarfs og efla skilning á markmiðum og leiðum í starfi þeirra sem koma að starfi með börnunum í Laugarnesi.

Palldagskrá

,,Að vera á palli” er það kallað hér í Laugarnesskóla þegar nemendur koma fram á palli eða í sal skólans, undir leiðsögn kennara og flytja undirbúin stutt atriði, s.s. leikþætti, upplestur, söng og tónlist fyrir alla sem eru í skólanum á þeirri stundu. Slík dagskrá er flutt einu sinni í viku. Hver bekkur kemur fram a.m.k. einu sinni á vetri og er reynt að virkja alla nemendur til þátttöku. Markmið palldagskrár eru:

  • að þjálfa nemendur í að koma fram fyrir stóran hóp og bera ábyrgð á framkomu sinni

  • að auka samkennd í bekknum að kenna nemendum

  • að setja sig í spor annarra að læra að hlusta og virða framlag annarra

  • að glæða listhneigð og auka fjölbreytni í skólastarfi

Náttúrugripasafn

Lauganesskóla á eitt af stærstu söfnum í grunnskóla hér á landi. Á fyrstu árum skólans eignaðist hann nokkra náttúrugripi. Þeim fór smám saman fjölgandi. Gripunum er komið fyrir í þar til gerðum skápum í sal skólans. Hér er um einstakt safn að ræða sem er notað í náttúrufræðikennslu í skólanum.

Listasafn skólans

Listskreytingar skólans vekja eftirtekt þeirra sem hingað koma. Tveir listamenn koma þar mest við sögu, Ásmundur Sveinsson og Jóhann Briem. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari skreytti forsal skólans með grindverki úr skeifnateini. Þar dregur listamaðurinn upp myndir af nemendum í námi. Við stigagang upp á efstu hæð skólans eru tvær styttur, börn sem halda á ljóskeri. Úti á leikvellinum við skólann er stytta af dreng sem heldur á fiski. Á undirstöðu styttunnar er drykkjarbrunnur. Á göngum skólans er einnig að finna á þriðja tug málverka eftir Jóhann Briem sem var teiknikennari við skólann.

Skólahljómsveit Austurbæjar

Skólahljómsveit Austurbæjar hefur starfsaðstöðu í Laugarnesskóla. Í starfi skólahljómsveitanna er haft að leiðarljósi að auka víðsýni og þroska nemenda, rækta listræna hæfileika þeirra og efla sköpunargáfu. Í skólahljómsveitunum er stuðlað að aukinni tónlistariðkun og félagsþroska, stutt við tónlistaruppeldi grunnskólanema og leitast við að jafna tækifæri nemenda til tónlistarnáms. Stjórnandi Skólahljómsveitarinnar er Vilborg Jónsdóttir. Sjá nánar hér.

Söngur á sal – morgunsöngur

Morgunsöng var komið á árið 1951 m. a. til þess að koma á góðum aga. Auk þess njóta nemendur þess að syngja saman og læra ljóð og lög sem efla móðurmálskunnáttu. Söngvasafnið hefur verið gefið út á bók og einnig eru til geisladiskar með undirspili söngvanna. Laugarnesskóli á sinn eigin sk´lasöng sem sunginn er við hátíððleg tækifæri. Lagið er eftir Báru Grímsdóttur en ljóðið er eftir Iðunni Steinsdóttur en báðar störfuðu þær við skólann. Skólasöngur Laugarnessóla

Skólablaðið

Skólablað Laugarnesskóla kemur út árlega. Í því eru myndir, greinar og ljóð eftir nemendur skólans. Foreldrar eru hvattir til þess að eignast eintak. Hagnaður af sölunni rennur til skólaselsins Katlagils.

Prenta | Netfang