Nemendur

Í Laugarnesskóla er menntun, uppeldi og líðan nemenda sett í öndvegi. Nám og starf hvers nemanda skal miða við þarfir hans. Í skólanum er lögð áhersla á að nemendum líði vel og þeir stefni ávallt að því að gera sitt besta. Þessir tveir þættir eru í raun órjúfanleg heild. Nemendur þurfa að tileinka sér bóklega og verklega þekkingu en ekki síður að læra að eiga farsæl samskipti við fólk.

Gagnkvæmt traust og virðing þeirra sem í skólanum vinna, gerir starfsandann notalegan og virkar hvetjandi. Starfsfólk skólans vill treysta nemendum, trúa því að þeir geri sitt besta og virða sérstöðu einstaklingsins. Það er jafnframt stefna skólans að nemendur geti treyst starfsfólkinu og leitað til þess þegar þeir þurfa á því að halda. Jafnframt ætlast skólinn til þess af nemendum sínum að þeir sýni félögum sínum og starfsfólki tillitssemi, virðingu og hjálpsemi.

Til að tryggja enn frekar farsælt nám og góða líðan er afar mikilvægt að eiga gott samstarf við heimili barnanna. Foreldrarnir þekkja börnin betur en nokkur annar og eru í raun sérfræðingar þegar börnin þeirra eru annars vegar. Foreldrar eru velkomnir í skólann og geta haft samband við kennara og skólastjórnendur á starfstíma skólans.

Einnig á skólinn frumkvæði að samstarfi. Samstarf foreldra og skóla byggist á reglubundnu upplýsingaflæði með fréttabréfum, heimasíðu, vikuáætlunum, bekkjarfundum, almennum fundum, viðtölum, símtölum, tölvupósti, heimsóknum og þátttöku foreldra í skólastarfi.

nemendurNemendafélag

Við Laugarnesskóla starfar nemendafélag skv. 10 gr. laga um grunnskóla, 2008.

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr.

Nemendur hvers bekkjar velja sér bekkjarfulltrúa og varamann hans í byrjun hausts. Hugmyndaráðið hefur mótað sér starfsreglur og tveir fulltrúar þess eru í skólaráði skólans. Bekkjarfulltrúi er talsmaður síns bekkjar ásamt því að vera umsjónarkennara og stjórnendum til ráðuneytis um innri mál bekkjarins.

Hugmyndaráðið fundar þrisvar til fjórum sinnum í mánuði og einn af kennurum skólans stýrir starfinu. Undanfarin ár hefur nemendafélagið skólans, Hugmyndaráðið, framkvæmt könnun þar sem nemendur eru spurðir um þætti sem þeir eru ánægðir með í skólanum og hvað þurfi að styrkja. Niðurstöður eru kynntar í hverjum bekk, á starfsmanna-og skólaráðsfundi.

Stjórnendur skólans nota niðurstöður sem hluta af sjálfsmati skólans. Skólastjóri fundar með Hugmyndaráði einu sinni á önn og þar eru rædd málefni sem nemendum finnst mikilvægt að taka upp. Ráðið hittir líka matráð skólans til að ræða um mötuneyti skólans og hvað megi bæta þar bæði er varðar umgengni nemenda og matseðil.

Lýðræðisleg vinnubrögð og virðingu fyrir skoðunum annarra eru leiðarljós starfsins þar sem nemendur eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið og samfélagið. Markmiðið er samkennd og virðing, færni í mannlegum samskiptum og aukinn skilningur.

Prenta | Netfang