Skip to content

Námsmat

Námsmat Laugarnesskóla er bæði formlegt og óformlegt. Formlegt námsmat felur í sér samræmd próf í 4. bekk, könnunarpróf, stöðupróf, ritgerðir og mismunandi verkefni sem skilað er á ýmsu formi í samræmi við viðfangsefni nemenda hverju sinni. Nemendur í 4. bekk taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði. Niðurstöður úr prófunum eru sendar heim með nemendum.

Óformlegt mat er samofið kennslunni og markmið þess er að leggja mat á vinnubrögð, bæði í skólanum og heima. Matið er samofið námi og kennslu og notað til að leiðbeina nemandanum um hvað vel er gert og hvað má betur fara. Til þess eru notaðar gullakistur, verkmöppur, gátlistar, dagbækur, samtöl við nemendur, jafningjamat og virkniathuganir. Ljóst er að sumir þættir námsmatsins eru og verða alltaf huglægari en aðrir. Vægi hvers þáttar er háð aldri, viðfangsefni og aðstæðum einstaklingsins.

Námsmat Laugarnesskóla á að vera byggt á námsmarkmiðum viðkomandi greinar og taka mið af aldri og þroska hvers og eins. Þar sem ekki er rétt né sanngjarnt að meta alla með sömu mælistikunni er nauðsynlegt að áherslumunur sé í mismunandi námsgreinum og árgöngum þrátt fyrir að meginaðferðirnar séu hinar sömu fyrir alla nemendur skólans. Markvisst námsmat á að koma nemanda, foreldrum og kennurum til góða við frekara skipulag náms. Skólaárinu í Laugarnesskóla er skipt í þrjár annir og í lok hverrar annar fá foreldrar og nemendur yfirlit yfir stöðu nemandans.

Í Laugarnesskóla er verið að þróa heildstætt námsmat með það að leiðarljósi að hafa matið sem fjölbreyttast og að það taki til sem flestra þátta í starfi nemandans. Leitast er við að greina mikilvæga þætti í fari einstaklinga í því augnamiði að styrkja jákvæða og sterka þætti og hlúa að veikum þáttum í þeim tilgangi að bæta sjálfsmynd nemenda.