Móttaka nemenda
Í Laugarnesskóla er formlega tekið á móti öllum nemendum samkvæmt áætlun. Auk hefðbundinnar móttöku nýnema gildir áætlun nemenda með sérþarfir þegar það á við.
Á hverju vori hitta deildarstjórar Laugarnesskóla leikskólakennara þeirra leikskóla sem væntanlegir nemendur 1. bekkjar hafa verið við nám. Á þeim fundum er farið yfir málefni einstakra nemenda með foreldum og skólinn fær afhent trúnaðargögn. Einnig eru skipulagðar skólaheimsóknir leikskólabarna í Laugarnesskóla til þess að auðvelda upphaf skólagöngu þeirra.
Þörf fyrir sérkennslu eða stuðning er metin í upphafi skólagöngu og eftir það við hver annaskil. Einnig er þörfin metin út frá þeim gögnum sem eru til og fylgja nemandanum frá fyrri skólum eða skólastigum. Nemendur sem falla undir viðmið um fatlanir fá sérkennslu og eða stuðning eins og með þarf hverju sinni enda hafi greining á erfiðleikum eða fötlun farið fram af viðurkennum aðilum. Upplýsingar um stefnu Reykjavíkur um skóla án aðgreiningar og stuðning við nemendur með sérþarfir má nálgast hér.
Þroskaþjálfi
Þroskaþjálfi er samstarfsaðili kennara og annarra starfsmanna eftir því sem við á. Mikilvægt er að þroskaþjálfi og kennari/kennarar starfi náið saman og gæti þess að verkaskipting þjóni sem best öllum einstaklingum bekkjarins/deildarinnar.
Þroskaþjálfi ber ábyrgð á og annast þroskaþjálfun og umönnun nemenda með fötlun.
Þroskaþjálfi skipuleggur þjálfunaraðstæður, velur/útbýr þjálfunar- og námsgögn eftir settum markmiðum. Hann metur árangur og endurskoðar markmið í samstarfi við samstarfsaðila og skilar niðurstöðum til næsta yfirmanns eða foreldra.
Talkennari
Talkennari athugar framburð og málþroska 6 ára barna í skólanum. Einnig kannar hann framburð og/eða málþroska einstakra barna samkvæmt beiðni kennara eða foreldra. Í kjölfarið fylgir talkennsla fyrir þau börn er þess þurfa.
Börn af erlendum uppruna
Börn af erlendum uppruna og börn sem hafa búið lengi erlendis fá viðbótar kennslu í íslensku og aðstoð við að ná tökum á skólastarfinu. Íslenskukennslan er tímabundin kennsla eftir þörfum hvers og eins. Ýmist er um einstaklings- eða hópkennslu að ræða. Móttökuáætlun Reykjavíkurborgar.