Þorpið-þekkingarsamfélag

Kæru foreldrar í Laugarnesskóla.

Haustið 2011 fór af stað foreldrastýrt verkefni innan Laugarnesskóla sem fékk nafnið Þorpið - þekkingarsamfélag. Verkefnið var hugmynd eins foreldris í hverfinu og var hugsað fyrir foreldra þeirra barna sem þurfa aukinn stuðning innan skólans. Oft eru mál barnanna í góðum farvegi, en stundum er ekki vitað um ástæðu þess að barnið upplifir erfiðleika á skólagöngunni. Einnig getur verið að vandamálin eru óljós og óáþreifanleg, á hinu svokallaða „gráa svæði“ þ.e. barnið ekki búið að fara í gegnum hið svokallaða greiningarferli. Stundum vill það brenna við að vanlíðan og vanmáttur foreldra gleymist í öllu ferlinu en það getur verið styrkjandi að hitta aðra foreldra og spegla eigin reynslu í reynslu annarra. Með því að skapa vettvang fyrir foreldra þá geta þeir öðlast nýja sýn og fengið mikilvægar upplýsingar sem geta auðveldað þeim að takast á við aðstæður barnanna.
Verkefnið fékk hvatningarverðlaun Heimilis- og skóla vorið 2012.
Markmið verkefnisins var að skapa jákvæðan og uppbyggilegan samstarfsvettvang þar sem foreldrar hittast og ræða saman um málefni barnanna. Lögð var sérstök áhersla á að miðla gagnlegri reynslu bæði milli foreldra en ekki síst á milli foreldra og skólans. Skólinn studdi verkefnið heilshugar og var allt samstarf mjög uppbyggilegt og ánægjulegt – við erum öll í sama liði.
Framkvæmd verkefnisins var þannig að fundir voru auglýstir og hittust foreldrarnir á fyrirfram ákveðnum stöðum s.s. á kennarastofunni eða á kaffihúsi, umræðan var létt og kom fljótlega í ljós að foreldrum þótti gott að deila áhyggjum sínum og plönum varðandi börnin með öðrum foreldrum í svipaðri stöðu.
Þeir foreldrar sem mættu á fundina áttu ýmislegt sameiginlegt en í flestum tilvikum áttu þeir börn sem glímdu við kvíða, ofvirkni, einhverfu/einhverfueinkenni og athyglisbrest. En eftir því sem börnin voru einangraðri félagslega, eða með erfiða hegðun, því meiri áhyggjur virtust foreldrarnir hafa.
Þau atriði sem oftast var rætt um á fundunum eru eftirfarandi:

• Barnið mitt samlagast ekki nægilega vel í bekknum og á jafnvel fáa eða enga vini.
• Barnið mitt truflar aðra í bekknum.
• Barnið mitt kvíðir fyrir að fara í skólann og grætur á morgnana.
• Barnið mitt er að lenda í einelti.
• Á ég að tala um/útskýra vandamál barnsins míns innan bekkjarins?
• Ef ég útskýri vandamálið, verður barnið mitt þá stimplað það sem eftir er?
• Ef ég tala við skólann, erum við þá orðin að vandamáli?
• Ég næ ekki til hinna foreldranna í bekknum, vegna þess að barnið mitt getur ekki leikið nægilega vel við hin börnin. Þannig erum við hluti af bekknum og ekki hluti af bekknum, sem er mjög óþægileg staða.

• Hvar eru hinir foreldrarnir sem eiga hin börnin sem eru að glíma við erfiða skólagöngu, erum við þau einu í þessum skóla. Hinir foreldrarnir virðast vera ósýnilegir?

Niðurstaða verkefnisins:
Foreldrar virðast þurfa meiri stuðning innan skólakerfisins, sérstaklega ef börnin standa illa félagslega.
Foreldrar hafa upplifað jákvæð og styðjandi viðbrögð ef þeir ákveða að fræða aðra foreldra innan bekkjarins. Einnig hafa þeir upplifað að því fyrr sem þeir gera það, því betra.
Gott getur verið að fá sérfræðing s.s. sálfræðing eða annan meðferðaraðila sem þekkir barnið til að aðstoða / sjá um kynninguna.
Skólinn reynir að styðja við börnin eftir fremsta megni og vill að foreldar leiti eftir aðstoð fyrr en seinna.
Ath: þessar niðurstöður eru ekki niðurstöður úr rannsókn/rannsóknum, heldur endurspegla þær einungis samantekt á upplifun þeirra foreldra sem tóku þátt í þessu verkefni.
Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að verkefnið fór af stað þá hafa u.þ.b. 10 foreldrar nýtt sér tækifærið til að hitta aðra foreldra í svipaðri stöðu og fimm foreldrar hafa verið viðloðandi verkefnið megnið af tímanum. Þeir foreldrar sem mættu á fundi hvöttu, miðluðu þekkingu og studdu hvert við annað og tók eitt foreldri af skarið varðandi kynningu innan bekkjar eftir að hafa rætt málið við hina foreldrana og fengið hvatningu þeirra. Annað foreldri nýtti sér þekkingu og hvatningu innan hópsins til að taka af skarið og hafa samband við skólann til að fá aukinn stuðning fyrir barn sitt.
Af hverju er gott að hittast?
Rannsóknir hafa sýnt að jafningjastuðningur bæði dregur úr ótta og eykur úthald fólks til að takast á við hindranir í daglegu lífi. Einnig aukast líkur á að persónuleg upplýsingagjöf á jafningagrunni stuðli að því að einstaklingar sem glíma við heilsufarsleg vandamál leiti frekar eftir stuðningi og árangursríkum úrbótum. Mikilvægt er að hafa það fast í huga að góð samvinna við skólann stuðlar að meiri árangri og var verkefnið hugsað sem vettvangur til að efla foreldrahliðina sem er sú hlið á teningnum sem of lítið hefur verið virkjuð. Í nýrri Aðalnámskrá er lögð ennþá meiri áhersla á samvinnu foreldra og skólans sem er nauðsynleg og ómetanleg auðlind. Það má því segja að þetta verkefni hafi fallið vel að þeirri stefnu.

Staðan í dag.
Þeir foreldrar sem keyrt hafa þetta verkefni hafa nú ákveðið að draga sig í hlé, enda hafa börnin okkar lokið eða eru að ljúka skólagöngu sinni í Laugarnesskóla. Það er okkar von að þetta verkefni hafi opnað augu fólks fyrir mikilvægi þess að ræða og fjalla um erfiðu, persónulegu málin vegna þess að það er svo erfitt að vera foreldri sem þorir ekki að segja frá og þorir ekki að biðja um stuðning. Það er líka svo erfitt að vera foreldri sem hefur lamandi áhyggjur af barninu sínu og heldur að það sé eina foreldrið í hverfinu sem hefur lent í þessari stöðu.
Þrátt fyrir að við höfum lagt skóna á hilluna þá geta aðrir foreldrar tekið upp þráðinn hvenær sem er og fengið stuðning frá Laugarnesskóla til að komast í samband við aðra foreldra í sambærilegri stöðu. Mikilvægt er að láta skólann vita ef þú sem foreldri ert tilbúin/n að miðla þekkingu og styðja við aðra foreldra, eða ef þú ert foreldri sem vilt gjarnan hitta aðra foreldra sem hafa reynslu og þekkingu á því hvað er gott farsælt að gera. Þannig getur þetta verkefni lifað áfram og þróast með þeim sem þurfa á umræðunni, vettvanginum og stuðningnum að halda.
Við mælum því eindregið með því að foreldrar taki frumkvæði og opni á umræðuna, tali saman, fræði aðra og reyni eftir fremsta megni að styðja hvert við annað og ekki síst við börnin – þá meina ég ÖLL börnin.
Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn.

Með kærri kveðju,
f.h. Þorpsins – þekkingarfélags
Ragnheiður Kristinsdóttir, iðjuþjálfi.

Prenta | Netfang