Hlutverk bekkjafulltrúa

Bekkjarfulltrúar eru kosnir, 2-4 í hverjum bekk, á námskynningu sem umsjónarkennari heldur fyrir foreldra í byrjun skólaárs. Stjórn foreldrafélagsins heldur fund með öllum bekkjarfulltrúum a.m.k. tvisvar á ári og er þeim innan handar varðandi skipulagningu og upplýsingar.

Hlutverk bekkjarfulltrúa er að vera tengiliðir og verkstjórar, þeir:

 • Taka þátt í starfi      foreldrafélagsins og virkja aðra foreldra til      samstarfs.
 • Skipuleggja bekkjarskemmtun      utan skólatíma til að nemendur og foreldrar hittist,      kynnist og eigi ánægjulega stund saman. Viðmið: Hittast a.m.k tvisvar f.      jól og tvisvar e. jól, þar af eitt skipti þar sem allur árgangurinn      hittist.
 • Skipuleggja vinahópa.      MIKILVÆG FORVÖRN. Sjá nánar hér að neðan.
 • Skipuleggja heimsóknir      foreldra í bekki einu sinni á skólaári í samráði við kennara.
 • Skapa vettvang fyrir foreldra      til að hittast, kynnast og spjalla t.d. með kaffihúsahittingi.      Mjög gott er að samræma reglur fyrir bekkinn s.s. notkun tölva, boð í      afmæli, afmælisgjafir, bannaðar kvikmyndir og tölvuleikir o.s.frv.
 • Mæta á aðalfund      foreldrafélagsins sem haldinn er í byrjun skólaárs.

Athugið að bekkjarfulltrúar eiga ekki að vera skemmtanastjórar heldur er mikilvægasta starf þeirra að virkja aðra foreldra til samstarfs !

Eftirtaldir bekkir, þ.e. bekkjarfulltrúar og foreldrar, koma að vetrarstarfi foreldrafélagsins í samvinnu við stjórn þess:

1. bekkur: Skipuleggur kökubasar á jólaföndrinu, sér um sölu og allir foreldrar bekkjarins koma með köku á basarinn.

2. bekkur: Aðstoðar á öskudagshátíð/Dótadegi sem haldinn er í safnaðarheimilinu í samstarfi foreldrafélags, Laugarsels og kirkjunnar. Bera fram veitingar (niðurskorna ávexti) og ganga frá eftir skemmtunina.

3. bekkur: Stjórnar páskabingói og hjálpar til við að safna vinningum fyrir bingóið.

4. bekkur: Sér um veitingasölu (pylsur/vöfflur) á hverfishátíðinni: Laugarnes á ljúfum nótum.

5. bekkur: Sér um sölu föndurvöru og aðstoðar á jólaföndri foreldrafélagsins.

6. bekkur: Sér um veitingasölu í jólaföndrinu og virkjar börnin í 6.bekk með sér í það.

Stjórn foreldrafélagsins mun setja sig í samband við bekkjarfulltrúa þegar nær dregur viðburðunum.

Vinahópar fyrir 1. til 3. bekk

Eru hugsaðir til að styrkja vináttubönd innan bekkjarins eða árgangsins. Reynslan sýnir að þeir eru mjög mikilvæg forvörn gegn einelti og stuðla að auknum skilningi foreldra og barna. Bekkjarfulltrúar skipuleggja vinahópana í samvinnu við umsjónarkennara. Til að hægt sé að koma þessu í kring er nauðsynlegt að skipulagið sé vel kynnt fyrir foreldrum (t.d. með foreldrafundi á kaffihúsi) og að allir séu þessu samþykkir og komi sér saman um hvernig standa eigi að heimsóknunum.

Fyrirkomulagið hefur verið á þann veg að bekknum/árgangnum er skipt upp í hópa og eru 4 - 5 nemendur í hverjum hópi. Hópurinn fer síðan einu sinni í heimsókn til hvers nemanda í hópnum, ca. 2 klst í senn. Bekkjarfulltrúar setja upp ákveðið skipulag með dagsetningu og er tímaramminn c.a 3 vikur sem hver og einn hefur til þess að bjóða heim. Æskilegast er að allir taki þátt í að bjóða til sín en ef einhver dettur út tekur næsta barn við þegar 3 vikna tímabilinu er lokið svo hópastarfið detti ekki alfarið niður. Gott er að einn vinahópur starfi f. áramót og e. áramót er stokkað upp í hópunum og annar hópur settur af stað. Mjög sniðugt er að búa til vinahópa ekki bara innan bekkjarins heldur líka þvert á árganginn svo þau kynnist þannig líka.

Dæmi um skipulag vinahópa sem sent er öllum foreldrum í bekknum/árgangnum.

Dags.

Nafn barns

Heimilisfang

Heimasími

Sími föður

Sími móður

20.sept - 13. okt

Gunnar

 

 

 

 

14.okt- 4.nóv

Fríða

 

 

 

 

5.nóv - 26.nóv

Hallur

 

 

 

 

27.nóv- 15.des

Sara

 

 

 

 

Kostnaður við vinahópa á helst ekki að vera neinn og eru þeir hugsaðir sem samverustund til að kynnast börnunum og foreldrum. Foreldri viðkomandi barns verður að vera heima og skipuleggja atburðinn með barni sínu og mjög gott er að bjóða foreldrum inn til skrafs og kynningar hvort sem er í upphafi heimsóknar eða lokin þegar börnin eru sótt. Þessar stundir eru ekki síður hugsaðar fyrir foreldra að kynnast hverju öðru og mynda tengsl og samstöðu innan foreldrahópsins. Videó og tölvuleikir eru ekki nothæfir í vinahópum.

Hugmyndabanki f. vinahópa:

 • Almennir leikir/hópleikir      innandyra/utandyra
 • Spila bingó, á spil
 • Baka köku/pitsu
 • Skreyta piparkökur
 • Búa til snjóhús
 • Gönguferð að þvottalaugum      og ormi í Laugardalnum
 • Fjöruferð í Laugarnesinu
 • Hjólareiðatúr um      útivistarsvæði hverfisins og nesti með
 • Sund í Laugardalslauginni
 • Nota leikvelli hverfisins

4. til 6. bekkur

Þá er betra að nota eftirfarandi fyrirkomulag sem felur í sér að búa til sambærilega töflu og hér sést, strax á fyrsta fundi foreldra um haustið þar sem bekkjarfulltrúar eru kosnir.  Ákveðið er að allur bekkurinn: (börn og foreldrar) hittist c.a tvisvar f. jól og tvisvar e. jól. Foreldarnir ákveða á þessum fundi hvað þeir vilja gera t.d. fara saman í sund, baka pizzu o.s.frv. og svo er blaðið látið ganga á milli allra foreldra á fundinum og þeir geta skráð sig sem umsjónaraðila fyrir því sem þeir kjósa.  Þannig er hægt að virkja sem flesta, helst alla foreldra en bekkjarfulltrúarnir sjá hins vegar um að staðið sé við dagskrána og minna viðkomandi á þegar kemur að þeirra viðburði.

 

Hvenær:

Hvað:

Hverjir:

Sept.

Sundferð:

Steinunn, Hannes,  Jón, Hafsteinn

Okt.

Pizzubakstur í heimilisfr.eldhúsi skólans

Gunnar, Mist, Þorkell, Birna

Feb.

Karate.

Kalli, Solla, Bjössi, Valla 

Mars.

Spila í skóla, snjókast

Sunna, Bjarni, Gummi, Fanney

 Foreldraheimsóknir

Bekkjarfulltrúar skipuleggja heimsóknir foreldra í kennslustund, einu sinni á ári, í samvinnu við umsjónarkennara. Foreldrum gefst þannig kærkomið tækifæri til að kynnast starfsháttum, umhverfi og aðbúnaði barnanna. Í þessum heimsóknum hafa foreldrar stundum kynnt sjálfa sig og sagt nemendum t.d. frá starfi sínu.

Við skulum muna það að sterk samkennd og góð tengsl barna og foreldra hefur áhrif á vellíðan og sjálfsmynd barna okkar og þannig getum við saman stuðlað að farsælli skólagöngu þeirra!

Með von um skemmtilegt samstarf, stjórn foreldrafélags Laugarnesskóla

Prenta | Netfang