Upplýsingar fyrir foreldra

Foreldrafélag Laugarnesskóla

Allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Laugarnesskóla eru félagar í Foreldrafélagi Laugarnesskóla. Félagið hefur aðstöðu í skólanum til fundahalda og annarrar starfsemi. Stjórn foreldrafélagsins samanstendur af 5 aðalmönnum sem kosnir eru til 2 ára í senn og 2 varamönnum sem kosnir eru til eins árs, á aðalfundi félagsins.

Verkefni Foreldrafélagsins eru margvísleg. Félagið kemur að námskeiðinu: Skólafærni ásamt skólanum og skólaráði sem haldið er í byrjun skólaárs fyrir 1.bekkjar foreldra. Einnig stendur það fyrir jólaföndri eða jólaskemmtun, páskabingói, heilsuviku og leikhúsferðum. Í samstarfi við Laugarneskirkju og Laugarsel er haldin öskudagsskemmtun og dótadagur í salarkynnum kirkjunnar. Hverfishátíðin: Laugarnes á ljúfum nótum, er vorhátíð sem allar stofnanir og félagasamtök hverfisins standa að og kemur foreldrafélag skólans að undirbúningsvinnu og veitingasölu. 10 ára í tjaldi nefnist svo samvinnuverkefni foreldrafélagsins, kirkjunnar og skátanna þar sem öllum 4.bekkjar börnum er að vori, boðið í tjaldferð eina nótt upp í Katlagil, sem er landskiki uppi í Mosfellsdal, sem kennarafélag Laugarnesskóla á og Laugarnesskóli hefur fengið að hafa not af.

Á heimasíðu skólans er að finna dagskrá foreldrafélagsins og fundargerðir auk þess sem foreldrum eru sendar upplýsingar í gegnum Mentor. Félagið á fulltrúa í SAMFOK, samtökum foreldrafélaga og skólaráða í Reykjavik. http://www.samfok.net/

Foreldrar eru hvattir til að vera virkir í foreldrastarfi skólans, þannig verður góður skóli enn farsælli og árangur og líðan barna okkar enn betri.

Bekkjarfulltrúar

Bekkjarfulltrúar eru kosnir, 2-4 í hverjum bekk á námskynningu sem umsjónarkennari heldur fyrir foreldra í byrjun skólaárs. Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldra við skólann og gegna mikilvægu hlutverki í samvinnu skólans, barnanna og foreldra. Sjá nánar á: Foreldrar » Bekkjarfulltrúar 2010-11 » Hlutverk bekkjarfulltrúa

Foreldradagar

Foreldradagar eru haldnir þrisvar á skólaárinu. Þeir eru með tvennu móti.

Annars vegar eru hefðbundin foreldraviðtöl sem allir nemendur skólans eru boðaðir í formlegt viðtal til umsjónarkennara ásamt foreldri (foreldrum) tvisvar á skólaárinu, þ.e. í október og í janúar. Þá daga eru sérgreinakennarar, sérkennarar og starfsmenn Laugarsels einnig til viðtals. Í sumum tilvikum boða þeir einnig foreldra til sín. Viku fyrir umrætt viðtal fá foreldrar í hendur tímatöflu frá umsjónarkennara þar sem þeim gefst kostur á að velja sér þann tíma sem hentar þeim best. Reynt er eftir fremsta megni að koma á móts við óskir foreldra og sérstök áhersla er lögð á að foreldrar sem koma fleiri en eitt í viðtal nái þeim í einni ferð í skólann.

Í annarlok velja nemendur verk í möppuna og í skólalok safna nemendur saman bestu verkum sínum í svokallaða gullakistu og færa rök fyrir vali á verkum í hana. Í lok skólaárs boða nemendur foreldra í viðtal sem þeir leiða og stjórna. Í viðtalinu skoða nemendur gullakistuna með foreldrum og öðrum gestum. Gullakistur nemenda eiga að endurspegla að einstaklingar eru mismunandi. Það er skylda skólans að koma til móts við og viðurkenna mismunandi þroska, getu og hæfileika. Með því að meta viðleitni nemenda og framfarir er oft hægt að hvetja nemendur til dáða. Gullakisturnar eru geymdar í skólanum milli ára til að nemendur geti skoðað framfarir sínar yfir nokkur ár

Sjá má nánari tímasetningu foreldradaga á skóladagatali. Umsjónarkennarar boða forráðamenn og nemendur til viðtals í skólann. Fundarboð eru send út með nokkurra daga fyrirvara. Á fundunum er farið yfir námslega stöðu nemenda, ástundun, hegðun og líðan og annað það sem liggur mönnum á hjarta.

Forráðmenn eru auk þess hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara barna sinna þegar tilefni er til og umsjónarkennarar munu að sama skapi hafa samband við heimilin ef þurfa þykir. Auðvelt er að fylgjast vel með námsgengi nemenda og skólastarfinu með því að nýta sér fjölskyldusíðuna, mentor.is, og heimasíðu skólans, laugarnesskoli.is.

Námskynningar

Að hausti er kynning í hverjum bekk á starfi vetrarins. Kynningin tekur tæpa klukkustund. Það er mikilvægt að allir foreldrar sæki námskynningu því á henni er kynntar áherslur í námi, starfi og leik allt skólaárið. Bekkjarfulltrúar eru valdir á kynningunni.

Orðsendingar til foreldra

Skólinn sendir öðru hverju orðsendingar heim með börnunum til að kynna hvað er á döfinni. Foreldrar eru því hvattir til að fylgjast vel með hvað börnin bera með sér heim og að skoða heimasíðu skólans.

Prófúrlausnir

Reglugerð um rétt nemenda og foreldra/forráðamanna til að skoða metnar prófúrlausnir nemenda nr. 710/1996

 • 1. gr.
      
  Reglugerð      þessi tekur til hvers konar prófa og námsmats í grunnskólum sem liggja til      grundvallar þegar nemendum er gefin prófeinkunn eða annar skriflegur      vitnisburður í lok annar eða skólaárs.
 • 2. gr.
      
  Nemandi      og foreldri/forráðamaður hafa rétt á að skoða metnar prófúrlausnir      nemanda, sbr. 1. gr. Jafnframt hefur nemandi og foreldri/forráðamaður rétt      til að skoða þau gögn sem liggja til grundvallar hvers konar skriflegum      vitnisburði um námsstöðu nemandans. Skólastjóri er ábyrgur fyrir því, að      sá kennari sem gefið hefur prófeinkunn og/eða vitnisburð sem um ræðir, sé      viðstaddur til að útskýra forsendur og niðurstöður mats fyrir nemanda og      foreldri/forráðamanni.
 • 3. gr.
      
  Foreldri/forráðamaður      nemanda skal bera fram beiðni um að skoða prófúrlausnir og/eða      námsmatsgögn nemanda eigi síðar en tveimur vikum eftir að nemanda hefur      borist prófeinkunn og/eða vitnisburður frá skólanum. Beiðnin skal berast      skólastjóra, sem í samráði við foreldri/forráðamann og viðkomandi kennara,      sér um að nemanda og foreldri/forráðamanni verði sýnd þau gögn sem um      ræðir. Ekki skal að jafnaði líða meira en ein vika fráþví að beiðni berst      frá foreldri/forráðamanni og þar til skólastjóri hefur orðið við      beiðninni.
 • 4. gr.
      
  Reglugerð      þessi er sett samkvæmt 45. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast      þegar gildi.
      
       Menntamálaráðuneytinu,
       23. desember 1996
       Björn Bjarnason

Prenta | Netfang