Byrjendalæsi
Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð til lestrarkennslu sem nær til allra þátta
móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld inn í eina heild undir hatti
læsis. Góðar barnabækur er sá efniviður sem unnið er með í námi og kennslu, jafnt í tæknilegri
vinnu með stafi og hljóð sem og vinnu með orðaforða og skilning. Helsti kostur aðferðarinnar er
að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný orð sem koma fyrir í texta. Enn fremur eru
sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og
málfræði tengd inn í ferlið. Í stafainnlögn er áherslan á hljóðaaðferð. Grundvallaratriði
hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu.