Íslenskuverðlaun unga fólksins 2017

islenskuverdlaun 2017Sextíu og fimm nemendur í grunnskólum Reykjavíkur tóku í gær við Íslenskuverðlaunum unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík.Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, er verndari Íslenskuverðlauna unga fólksins og afhenti hún þau við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal Hörpu. Meðal verðlaunahafa eru ungir lestrarhestar, framúrskarandi upplesarar, tvítyngdir nemendur sem náð hafa góðum tökum á íslensku á skömmum tíma, sagnahöfundar og ljóðskáld. Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Allir grunnskólar í borginni geta tilnefnt nemendur eða nemendahópa, einn á hverju skólastigi. Verðlaunin voru að þessu sinni viðurkenningarskjal undirritað af frú Vigdísi, verndara verðlaunanna, og bókin Ljóðaúrval með ljóðum Jónasar Hallgrímssonar í samantekt Böðvars Guðmundssonar. Verðlaunhafar fá einnig boð frá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Vigdísarstofnun í móttöku í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1, þriðjudaginn 5. desember kl. 17.

Að þessu sinni tilnefndi Laugarnesskóli tvo nemendur til verðlaunanna, þau Michal Pawel Usico nemanda í 6.N og Sögu Davíðsdóttur í 4. S. fyrir framúrskarandi árangur í íslenskunámi sínu. Á myndinni má sjá Sögu taka við sinni viðurkenningu úr hendi frú Vigdísar.

Prenta | Netfang