Laugarnesskóli fær viðurkenningu í annað sinn sem Réttindaskóli Unicef

Mikið var um dýrðir í Laugarnesskóla á alþjóðlegum degi mannréttinda barna þann 20. nóvember.
Haldið var nemendaþing þar sem allir nemendur fengu tækifæri til að koma skoðunum sínum um skólastarfið á framfæri. Nemendur í sjötta bekk stýrðu umræðum í aldursblönduðum hópum en kennarar gegndu hlutverki fundarritara. Margt áhugavert kom fram í tillögum nemenda, meðal annars ýmislegt sem verður nýtt í undirbúningi nýrrar viðbyggingar við skólann.
Í morgunsöng þennan dag komu fulltrúar Unicef á Íslandi í heimsókn og veittu Laugarnesskóla og Laugarseli viðurkenningar sem Réttindaskóli og Réttindafrístund Unicef. Laugarnesskóli hlaut þessa viðurkenningu árið 2017, fyrstur reykvískra skóla og Laugarsel á sama tíma og var þá fyrsta frístundaheimilið í heiminum sem hlaut þessa viðurkenningu.
Endurnýjun viðurkenningarinnar ber þess vitni að vel hefur gengið að flétta mannréttindi barna inn í allt starf skólans og frístundarinnar.